145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eftir þetta prýðilega svar hv. þingmanns, sem var málefnalegt að öllu leyti og lýsti í reynd nokkuð eindregnum stuðningi við málið, verð ég að segja að ég græt það sárt að hv. þingmaður skuli þurfa að hverfa af fundi og skora á hann að reyna að breyta dagskrá sinni til þess að geta skilað okkur áfram þeim upplýsingum sem hann bersýnilega býr yfir. Hins vegar tek ég undir allt það sem hv. þingmaður sagði og þakka Frosta Sigurjónssyni, hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar, fyrir það jákvæða viðhorf sem hann tjáir. Það eru nákvæmlega svör af þessu tagi sem geta leitt okkur sameiginlega til einhvers konar niðurstöðu sem endar í því að við, svo ég vísi í orð hv. þingmanns, komum í veg fyrir að hluti af samfélaginu geti farið burt með fé sitt og komist hjá því að greiða af því skatta og skyldur til velferðarsamfélagsins. Þetta voru lokaorð hv. þingmanns. Ég er honum algjörlega sammála um að það er mergur málsins.

Mér finnst það lofa góðu að hv. þingmaður, þótt ekki sé nema í andsvari, komi og taki með þessum hætti svo rækilega undir málið. Það var ekki hægt að skilja mál hans öðruvísi en að hann teldi að ein af þeim leiðum sem þyrfti núna að rekja sig eftir væri að kortleggja vandann og þá væntanlega að beita þeim tækjum og tólum sem hugsanlega nefndin, hugsanlega rannsóknarnefndin sem verður stofnuð á grundvelli þessarar tillögu — og skoði þá líka aðra banka. Það er ákaflega mikilvægt. Þetta er aðeins eitt fyrirtæki sem einn banki notar, kannski notaði hann fleiri. Það voru aðrir bankar. Við þurfum að ná utan um þann vanda allan. Við þurfum að uppræta þetta því að þetta er versta táknmynd ójöfnuðarins sem er að skapast í íslensku samfélagi. Það veit ég að einn (Forseti hringir.) af þeim sem fylgja í fótspor Jónasar frá Hriflu, sem alltaf vildi taka saman höndum með fulltrúum verkamanna í (Forseti hringir.) bæjunum, vill ekki svoleiðis samfélag frekar en ég.