145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

verðmat á hlut Landsbankans í Borgun.

477. mál
[15:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir því hvernig ég hef nú ítrekað farið fram á það við Bankasýsluna að allt verði dregið fram varðandi þessa sölu sem hægt er og mun koma þeim svörum til þingsins. Ég hef sömuleiðis á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég bý yfir fjallað um það í svari mínu sem ég hef upplýsingar um varðandi verðmatið annars vegar og fyrirvarann hins vegar. Það var sérstaklega spurt um það.

Ég held að menn eigi að fara aðeins varlega í að fullyrða í dag um eitthvert tiltekið tap sem Landsbankinn hafi orðið fyrir. Ég er áhugasamur um að finna út úr því hvers vegna þetta var gert svona, sérstaklega vegna þess að í mínu ráðuneyti er eigendastefnan sett og við förum fram á að henni sé fylgt.

Ég vil ekki að menn geri lítið úr því heldur hér í umræðunni að stjórnendur og stjórn bankans hafa gengist við mistökum í þessu máli. Það er ekki eins og Landsbankinn hafi tekið þannig á málinu eða Bankasýslan að hér hafi bara allt verið með felldu og að menn séu að gagnrýna málsmeðferðina að ástæðulausu. Það er ekki svo. Menn hafa gengist við því, síðast á aðalfundi Landsbankans, að mistök hafi verið gerð.

Varðandi verðmat upp á 19–26 milljarða hefur það hvergi verið birt svo mér sé kunnugt um. Ég hef heyrt talað um eitthvert slíkt verðmat en það hefur hvergi komið fram þannig að mér finnst það ekki góður grunnur fyrir umræðu um þetta mál. (ÖS: Þú átt að komast að því.) Við höfum ekki látið framkvæma neitt slíkt mat.

Hins vegar veit ég að Íslandsbanki sem nú er í eigu ríkisins færði upp virði á sínum hlut um 5,4 milljarða á þessu ári vegna þess að væntingar voru um að eignarhluturinn væri meira virði en áður var fært í bækur Íslandsbanka. Hér hefur ekki heldur komið fram í dag að Landsbankinn hefur höfðað mál, hyggst að minnsta kosti höfða mál (Forseti hringir.) samkvæmt því sem fram er komið en um þetta munum við geta fjallað nánar þegar frekari svör berast.