145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsögu sína í málinu en ekki síður fyrir andsvar hv. þm. Frosta Sigurjónssonar um ýmis sjónarmið sem koma upp í hugann þegar þessi mál eru annars vegar. Ég sakna þess að vera ekki með hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra þegar við erum að tala um svo stór mál og í raun algerlega fordæmalaus. Það verður varla við annað unað en að þeir séu við umræðuna, ekki síst þegar fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna leggja sitt af mörkum til að færa þessi mál inn í einhverja framtíð eða taka skref í því að fanga þetta verkefni af ábyrgð og þannig að það sé Íslandi til sóma.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Ég heyri að hann er sammála mér og flestum þeim sem hafa rætt þessi mál hér undanfarið um að starfsemi skattaskjóla og lágskattasvæða sé í sjálfu sér skaðleg. Ágætur bisnessmaður, kona í bænum, Margrét Kristmannsdóttir, var með góða samlíkingu á dögunum og talaði um að það að vera með góða peninga í skattaskjólum væri eins og að kaupa sér kókflösku á nektarstað. Þá spyr maður: Af hverju varstu að fara á nektarstaðinn að kaupa þér þessa kókflösku, af því að hún fæst í hvaða sjoppu sem er? Með því að taka þátt í þessu er maður náttúrlega með vissum hætti að leyfa hina óeðlilegu starfsemi.

Mig langar fyrst og fremst að spyrja hv. þingmann, af því að hann hefur þær væntingar að við getum verið í fararbroddi á heimsvísu í því að taka á þessum málum: Hversu trúverðugt er það þegar við erum enn þá með tvo ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem er að finna í Panama-skjölunum? Gengur það með einhverju móti? Þá er ég að tala um bæði þessa ágætu tillögu hér og tillögu Vinstri grænna sem við ræddum á föstudaginn og ekki síður vinnu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar. Gengur að halda því fram að við ætlum að vera í forustu í þessu máli meðan (Forseti hringir.) ríkisstjórnin sjálf hefur ekki tekið betur til hjá sér en raun ber vitni?