145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

dagsetning kosninga.

[15:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er því miður ekki miklu nær en ég ætla samt sem áður að reyna að skilja þetta. Ég skil það sem svo að við höldum hér áfram eitthvað fram í júní, síðan kemur þing eitthvað saman í ágúst. Það þarf þá að breyta lögum, held ég að hljóti að vera, til þess að nýtt þing komi ekki saman annan þriðjudag í september. Á þá að slíta þinginu fyrir þann tíma eða á að framlengja þetta ágústþing?

Í gær ræddum við í fyrsta sinn mjög merkilega fjármálaáætlun. Jafnvel þó að ég sé ósammála atriðunum og áherslunum sem þar eru lagðar voru það merkileg tímamót að ræða þá fjármálaáætlun. Ég spyr þá: Ætlar fjármálaráðherra (Forseti hringir.) að leggja fram fjárlagafrumvarp byggt á þessari áætlun fyrir kosningar? (Forseti hringir.) Eða hvað hugsar hann sér? Ég bið um útskýringar á því.