145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:21]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi umræða fari fram á Alþingi. Mývatn er ein af okkar dýrmætustu náttúruperlum og lífríki vatnsins er auðugt og einstakt. Okkur ber að standa vörð um það. Kveðið er á um vernd Mývatns og Laxár í sérstökum lögum og í Ramsar-samningnum. Við hljótum því að bregðast við slæmum tíðindum af lífríkinu. Ég vil upplýsa hér um hvað stjórnvöld hafa verið að gera á undanförnum mánuðum í kjölfar upplýsinga um óvenjulegt ástand vatnsins og það höfum við gert frá því að við fréttum það síðastliðið sumar. Jafnframt vil ég upplýsa um hvaða skref ég hyggst taka á næstunni en ég reyni fyrst að svara spurningum hv. þingmanns.

Varðandi fyrstu spurninguna, hvort ráðherra sé sammála því að ríkið hafi skyldur, er raunverulega hægt að svara með einu orði: Sannarlega. Ég þyrfti ekki að hafa fleiri orð um það. En íslensk stjórnvöld bera ríka ábyrgð varðandi vernd náttúru Mývatns. Sérstök lög eru í gildi þess efnis og vatnið er á lista Ramsar-samningsins vegna hins auðuga lífríkis vatnsins, eins og hér hefur komið fram. Ráðuneyti mitt ber því ábyrgð á framkvæmd þessara laga og heyrir það undir Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn sem rannsakar og vaktar vatnið.

Fyrir rúmu ári skilaði stýrihópur á vegum ráðuneytisins mér tillögum um hvernig efla mætti og styrkja stofnanir okkar sem sinna rannsóknum og vöktun. Frumvarp um sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands og RAMÝ, sem ég hef mælt fyrir og umhverfis- og skipulagsnefnd hefur til umræðu, byggir einmitt á tillögum þessa hóps. Meginmarkmiðið var ekki síst að efla rannsóknir og vöktun á náttúru Mývatns og Laxár með kerfisbundnum hætti, efla þverfaglegt starf, auka skilning og úrvinnslu við gagnaöflun og auka miðlun upplýsinga. Nákvæmlega það sem hv. þingmaður tíndi hér til.

Því miður er þetta starf eitthvað í láginni í nefndinni.

En ekki er hægt að segja annað en að málefni Mývatns hafi stöðugt verið í meðhöndlun hjá okkur í ráðuneytinu og í kjölfar ástandsins síðastliðið sumar lét ég gera sérstaka úttekt á innstreymi næringarefna í Mývatn og hvaðan þau kæmu. Tilgangurinn var fyrst og fremst að skilja ástandið betur og orsakir þess og ekki síst að undirbyggja mögulegar aðgerðir til úrbóta. Úttektin birtist fyrr á þessu ári og er niðurstaðan í samræmi við það sem vísindamenn hafa sagt í fjölmiðlum nú á undanförnum dögum. Það er ekki auðvelt að benda á einn sökudólg eða finna töfralausn, en sennilega bætist álag af mannavöldum ofan á náttúrulegar sveiflur í vatninu. Ég túlka þessa niðurstöðu þannig að við eigum að fara í aðgerðir til að draga úr álagi strax þó að ekki sé víst að þær muni einar og sér ná að snúa ástandinu við á stuttum tíma. Þá vil ég ítreka að við megum ekki ræða um þessi mál saman, þ.e. um lífríki vatnsins sem hér er til umræðu, og náttúru svæðisins, sem er rétt að Umhverfisstofnun fjallar um og er á rauðum lista. Mér finnst það vera annað umræðuefni.

Sá ráðherra sem hér stendur hefur ekki ein vald til þess að veita fé til fráveitna í einstöku sveitarfélagi en ég tel rétt að draga betur fram allar staðreyndir og sjónarmið til að auðvelda ákvarðanatöku í þessum efnum. Slík vinna er hafin í ráðuneytinu og ég vona að hún taki skamman tíma.

Varðandi þriðju spurninguna, hvort í vændum sé átak af hálfu ríkisins til að aðstoða sveitarfélög almennt, hefði mér nú fundist rétt að þeirri spurningu hefði verið beint til fjármálaráðherra en ekki umhverfisráðherra, en vissulega höfum við áhyggjur af því og viljum taka til hendinni í umhverfisráðuneytinu, enda er unnið að endurskoðun fráveitureglugerðar, eins og komið hefur fram, og á ég von á að hún líti dagsins ljós innan mjög skamms tíma.

Mér finnst erfitt að við blöndum saman umræðu um þá stöðu sem við erum nú í varðandi Mývatn við annað mál vegna þess að við verðum að horfa þar til sérstakrar verndarstöðu og verndargildis vatnsins og ástandsins sem nú er varðandi bakteríublóma sem kallar á aðgerðir okkar. Einnig þarf að skoða fleiri þætti en fráveitur varðandi bakteríublóma í Mývatni. Skoða þarf áfok og áburð frá landbúnaði sem og áform um nýjar framkvæmdir á svæðinu og fleira.

Ég tel því rétt að skoða málefni Mývatns alveg sérstaklega. Við erum að ýta úr vör samráðshópi sem skila mun mér áliti fyrir 17. júní næstkomandi. Við viljum virkja sem breiðastan hóp, bæði heimamanna og sérfræðinga, til ábyrgðar og lausnar í þessu máli.