145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Umhverfisráðherra er mjög tilbúin að koma með slíka tillögu, hv. þingmaður og fyrrverandi fjármálaráðherra, sem þekkir nú hvernig kaupin gerast á eyrinni. En ég fagna mjög þeirri samstöðu sem ég skynja hér um að standa vörð um lífríki Mývatns og þær hvatningar sem verið hafa í þessu máli. Ég tel að í sjálfu sér þurfi ekki að hafa miklar hvatningar uppi hvað mig varðar og það hef ég verið að reyna að segja undanfarið í fjölmiðlum af því að við höfum verið að taka á þessum málum í ráðuneytinu. Ég setti fyrir meira en ári síðan í gang rannsóknir og skýrslugerð til þess að vita meira um Mývatn vegna þess að við í ráðuneytinu höfðum áhyggjur.

Ég fagna því mjög að við séum að ná hér samstöðu um að herja á að við fáum fjármagn í framkvæmdir við Mývatn við fráveituframkvæmdir, að Skútustaðahreppur fái einhverja aðstoð.

Það er nú þannig varðandi Mývatn að sérstök rannsóknastöð hefur verið starfandi þar í áratugi þannig að maður skyldi ætla að við hefðum meiri yfirsýn og meiri vitneskju um þetta vatn en margar aðrar perlur okkar. Á því verðum við náttúrlega að byggja.

Varðandi heimamenn og hvað við viljum gera — ég taldi mig vera að efla rannsóknastarfið og geta eflt það þannig að það yrði víðtækara með sameiningu RAMÝ og Náttúrufræðistofnunar, en það hefur ekki alveg fallið í kramið. Mér finnst spennandi að kanna hvort sem við getum búið til einhvers konar hreiður eða þekkingarsetur eða Nýheima á Mývatni af því að við erum með margar rannsóknastöðvar (Forseti hringir.) þar, t.d. fjórar undirstofnanir umhverfisráðuneytisins plús Minjavernd. Hvernig væri það að við reyndum að gera það (Forseti hringir.) til þess að koma þessu öllu í enn betra lag?