145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er sorglegt fyrir okkur að horfast í augu við það að samfélag okkar er gjörspillt þar sem efri lög þjóðarinnar leita allra leiða til þess að komast hjá skattgreiðslum. Aflandsbælin, eins og ríkisskattstjóri nefnir þau svo réttilega, skattaskjól einstaklinga og fyrirtækja sem kjósa að skjóta sér undan greiðslum til sameiginlegra sjóða landsmanna, tengjast æ fleiri þjóðþekktum einstaklingum, bæði í stjórnsýslunni og viðskiptalífinu; stórútgerðarmenn, og sitjandi ráðherrar telja enga ástæðu til að hreyfa sig og senda þau skilaboð út í samfélagið að þetta sé bara allt í lagi, þetta hljóti að gleymast.

Nei, við megum ekki sofna á verðinum. Þetta er ekki í lagi. Fyrrverandi forsætisráðherra var látinn taka skellinn fyrir Sjálfstæðisflokkinn og reynir hann nú að hvítþvo sig en opinberar um leið hvernig ríka fólkinu nýttist að leggja af auðlegðarskattinn. Þjóðin verður að rísa upp gegn þeirri spillingu sem gegnsýrir íslenskt samfélag og nær til stórs hluta fjármagnseigenda sem leita allra leiða til að greiða ekki skatta og skjóta sér undan samfélagsábyrgð.

Í öllum hinum vestræna heimi er verið að samræma átak til að uppræta skattaskjól en Íslendingum er ekki einu sinni boðið að borðinu til að ræða þessi mál, eins og í London þar sem verið er að ræða þessi mál af þjóðarleiðtogum. Stórsködduð ímynd landsins út á við er orðin þannig að við erum litin hornauga í þessu sambandi. Spilaborgin er hrunin, eins og ríkisskattstjóri komst svo vel að orði í riti sínu Tíundinni. Við megum ekki láta fjármálaelítuna eyðileggja velferðarkerfi landsins með því að leita allra leiða til að greiða ekki skatta til íslensks samfélags. Við verðum að standa saman og vera ekki sofandi yfir því að þessi mál eru ekki í lagi, ekki heldur hér á þingi.


Efnisorð er vísa í ræðuna