145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:19]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka framsögumanni málsins, Elsu Láru Arnardóttur, kærlega fyrir alla hennar vinnu, ekki bara hér í þinginu heldur sem fulltrúi í verkefnisstjórn varðandi framtíðarskipan húsnæðismála, sömuleiðis formanni nefndarinnar sem átti líka sæti þar og hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem kom með tillögurnar um að breyta stuðningi við félagslegt húsnæðiskerfi með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég vil líka þakka nefndinni í heild sinni fyrir gífurlega mikla vinnu. Þar er einkar gott að sjá að það er samstaða um þær breytingar sem hér er verið að gera. Þegar kemur að húsnæðismálum þurfum við nefnilega að huga að öllum heimilum, ekki bara sumum, og hafa í huga að heimilin eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Þess vegna þurfum við að vera með fjölbreyttar lausnir á húsnæðismarkaði; séreign, búseturétt, það er þegar búið að samþykkja frumvarp um húsnæðissamvinnufélög, og virkan leigumarkað, og það er það sem við erum að gera hér.