145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sagði í gær að hann liti á veiðigjöld sem sérstakan aukaskatt á landsbyggðina, sérstaklega á ákveðna staði þar sem þau legðust þungt á. Ég vil segja að veiðigjöldin eru þá kannski bara sérstakur skattur á Reykjavíkurkjördæmi norður sem er mesti útgerðarstaður landsins. Það er náttúrlega alger firra að taka svona til máls og gerir ekki annað en að ýta undir þann leiða ávana á þjóðþinginu að láta eins og það sé mikið bil á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Ef það er bil á milli þéttbýlis og dreifbýlis í einhverju í þessu landi er það þegar kemur að atkvæðisrétti fólksins. Fólks sem býr norðan við Hvalfjarðargöngin hefur tvö og hálft atkvæði á við mig. Það er ójöfnuður. Ég er ekkert að gera það að sérstöku umtalsefni. En ráðherrann sagði líka að honum þætti veiðigjaldið of flókið og að finna þyrfti aðra aðferð til að reikna það út, ef hann vill þá láta borga eitthvað fyrir að nýta auðlindina, sem hlýtur að vera. Ég hef lausn á því. Við getum boðið og eigum að bjóða aflann út og við eigum að gera það í smáum skömmtum þangað til við erum búin að afnema þetta óréttláta kvótakerfi sem gerir það að verkum að lítill hópur auðmanna sópar til sín gróða á kostnað velferðarkerfisins, á kostnað okkar allra hinna. Síðan segir hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra: Af hverju eiga ekki aðrir að borga, eins og ferðaþjónustan eða raforkan? Auðvitað eiga þau að gera það líka. Landsvirkjun er farin að greiða arð og hyggst greiða meiri arð. Auðvitað eigum við að leggja gjöld á þá sem gera út á það að selja ferðir til að skoða íslenska náttúru. Auðvitað eigum við að gera það, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál