145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[15:56]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér talar fjármálaráðherra eins og allt sé í himnalagi hvað varðar aðbúnað ungs fólks á Íslandi. Ég held að hvert einasta ungmenni og hver einasta unga manneskja hér á landi finni það á eigin skinni að hún hefur ekki fengið sömu kaupmáttaraukningu og aðrar kynslóðir, eins og hv. þm. Björt Ólafsdóttir nefndi áðan. Ég held að hver einasti ungi einstaklingur á Íslandi finni mjög harkalega fyrir því hversu erfitt er að fara inn á húsnæðismarkaðinn hér á landi eftir gríðarlegar hækkanir á húsnæðisverði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, á undanförnum árum, að ég tali nú ekki um leiguverðið sem oft er á pari við eða jafnvel hærra en það sem fólk þénar.

Virðulegi forseti. Ég held líka að ungt fólk finni það á eigin skinni hvernig dregið hefur verið saman í námslánakerfinu. Á sama tíma finnur ungt fólk líka mjög harkalega fyrir því að hér hefur fæðingarorlofið staðið í stað, menn hafa ekki sinnt því að láta það vaxa eins og vera ber. Þetta sama unga fólk, þau sem þó eignast börnin, finnur svo harkalega fyrir mjög háum leikskólagjöldum. Það vantar algjörlega að einhvers staðar sé dreginn saman kynslóðareikningurinn fyrir þessa hópa og horft á alla hlutina í samhengi, vegna þess að það er mjög þungur róður að koma sér af stað í lífinu hér. Við eigum að horfast í augu við það. Við eigum að gera eitthvað í því en ekki draga upp glansmyndir eins og hæstv. fjármálaráðherra reyndi að gera áðan. Þetta er alvörumál. Með því að gera eitthvað í þessu núna fjárfestum við til framtíðar. Við fjárfestum í framtíðinni hér á landi.

Eins og hv. þm. Björt Ólafsdóttir nefndi í ræðu sinni þurfum við að horfa til lengri tíma í þessum málum. Þetta skiptir máli af því að þjóðin er að eldast og við þurfum á ungu fólki að halda. Við viljum ekki sjá það leita tækifæranna erlendis, vegna þess að þar bjóðast þau svo sannarlega og (Forseti hringir.) við komum ekki vel út í samanburði á mörgum af þeim sviðum sem ég nefndi.