145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[23:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp um þessa atkvæðagreiðslu og þakka fyrir gott samstarf við efnahags- og viðskiptanefnd og það starf sem hefur verið unnið í nefndinni á undanförnum dögum. Hér í umræðunni hafa verið reifuð ýmis sjónarmið. Ég skil allt sem sagt hefur verið um tímaþröngina. Það er ekki óvænt. Varðandi forgangsröðunina vil ég að það komi fram að við erum í reynd að forgangsraða í þágu almennings, lífeyrissjóða og annarra. Þetta frumvarp er sniðið að því að geta lyft höftum af lífeyrissjóðum, af íslenskum almenningi, af fyrirtækjunum. Forsenda þess að það sé hægt er að við höfum lokið umbúnaði um þennan hluta greiðslujafnaðarvandans. Óháð því hvort menn taka á endanum þátt í útboðinu eða rata inn á reikningana höfum við með þessu máli búið þannig um hnútana að við getum aflétt höftum af íslenskum almenningi, fyrirtækjum, lífeyrissjóðum og öðrum. Það er (Forseti hringir.) kjarnaatriði í þessu máli.