145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

skráning lögheimilis.

[15:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Löngum höfum við Íslendingar getað státað af fyrirbæri sem heitir þjóðskrá, sem er afskaplega gagnlegt fyrirbæri og inniheldur upplýsingar um alla landsmenn. Og gott betur. Í þeirri þjóðskrá kemur fram meðal annars lögheimili einstaklinga, kennitala og nafn o.s.frv. Þetta þekkjum við öll. Á sínum tíma, fyrir tíð internetsins, var þessi skrá þess eðlis að maður gerði ekki ráð fyrir að hún færi í almenna dreifingu út um allan heim. Síðan kom internetið og á sínum tíma lék fólk sér að því að fletta upp í skránni án nokkurs konar auðkenningar. Núna er henni haldið innan ramma heimabanka eða á viðlíka stöðum en fyrirtæki og ýmsir þjónustuaðilar víða um völl nýta sér þjóðskrá enda er hún mjög gagnleg til margra verka. Þó hygg ég að það sé eitt sem hafi gerst í millitíðinni, við höfum ekki áttað okkur á því að þarna eru vissulega upplýsingar um alla landsmenn sem verða kannski viðkvæmari með tímanum þar sem orðið er auðveldara að dreifa þeim. Það er þess virði að íhuga af og til hvort það sé eðlilegt að öllum landsmönnum sé skylt samkvæmt lögum að gefa upp hvar þeir geyma dótið sitt, fjölskylduna sína og sjálfa sig að öllu jöfnu. Ég er að tala um lögheimilisskráninguna sérstaklega. Þetta er umræða sem mig hefur lengi langað til að fara aðeins í vegna þess að ég átta mig ekki á því nákvæmlega hvers vegna við þurfum raun að hafa lögheimili í opinberlega aðgengilegri þjóðskrá nema til þess að hafa skýra boðleið fyrir t.d. ábyrgðarbréf og því um líkt, þegar ríkið þarf nauðsynlega að ná með sannanlegum hætti til einhvers tiltekins einstaklings. En ég hygg að í dag væru rafrænar leiðir mögulegar sem mundu gera það fyrirkomulag í raun og veru úrelt að hafa staðsetningu skráða opinberlega og hafa það að lagaskyldu í þokkabót.

Nú frétti ég af því nýlega að frumvarp væri í vinnslu einhvers staðar í stjórnsýslunni sem tengdist þessu. Mig langaði til að forvitnast um það hjá hæstv. innanríkisráðherra hver staða þess frumvarps væri og hvert viðhorf hæstv. ráðherra væri í málaflokknum.