145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

skráning lögheimilis.

[15:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessi viðbrögð. Þetta er eitthvað sem okkur er kannski ekki tamt að hugsa um dags daglega á Íslandi. Við erum einfaldlega vön því að hafa þjóðskrá. Við erum vön því að þessar upplýsingar séu aðgengilegar öllum. Eftir því sem fram líða stundir hef ég alltaf meiri og meiri áhyggjur af því að þetta sé of mikið. Ég velti því fyrir mér ef við værum að taka upp þjóðskrá núna hvort við mundum setja staðsetningu okkar í formi lögheimilis í þá skrá ef hún væri aðgengileg rafrænt í öllum heimabönkum landsins og víðar, enda eins og ég segi, það eru margir aðilar sem nota þetta.

Nú vil ég halda því til haga að þetta er ekki málflutningur gegn þjóðskrá eða tilvist hennar enda afskaplega dýrmætt plagg sem við notum við mjög mikilvæga starfsemi, bæði opinbera og óopinbera. En hins vegar þykir mér mikilvægt að við höldum því til haga að tækniframfarir bjóða upp á nýjar leiðir til að leysa vandamál sem við leystum áður með hlutum eins og lögheimilisskráningu. Því fagna ég að hæstv. ráðherra taki vel í málið og vona að hæstv. ráðherra komi áleiðis þeim sjónarmiðum að hægt sé að leysa þessi gömlu vandamál með nýstárlegri hætti.