145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

flugþróunarsjóður.

636. mál
[16:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé mjög aðkallandi að opna fleiri gáttir inn í landið og þótt við sem búum á Norðausturlandi sjáum þetta sem einhvers konar byggðaverkefni, það þurfi ekki alltaf að fara til Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar til að komast úr landi, er þetta orðið mjög aðkallandi vegna þess að við þurfum að dreifa álaginu af ferðamönnum betur yfir landið. Í þessu eru samt áskoranir, t.d. þyrfti að jafna kostnað á flugvélaeldsneyti sem er dýrara úti á landi. Svo veltir maður líka fyrir sér markaðssetningunni á Íslandi, væntanlega þarf Íslandsstofa að gera svolítinn skurk í því að markaðssetja dreifðari byggðir fyrir ferðamenn. Þetta er góð umræða og ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á (Forseti hringir.) þessu. Það er ánægjulegt að heyra að búið sé að skipa í stjórn. Ég hitti einmitt einn stjórnarmann á flugvellinum í morgun og við ræddum þetta mál.