145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa áhyggjum mínum vegna þeirra mansalsmála sem upp hafa komið hér á landi að undanförnu, í Vík í Mýrdal og svo núna á hóteli hér í borg. Það er greinilegt að Ísland er ekki undanskilið þegar fórnarlömb mansals eru annars vegar og ég skora á almenning að vera vakandi fyrir þessum ógnvaldi sem er ekkert annað en nútímaþrælahald.

Mansal er fjölþjóðleg, skipuleg brotastarfsemi sem virðir engin landamæri. Íslensk stjórnvöld taka þátt í alþjóðlegu samstarfi gegn slíkri starfsemi. Það hefur meðal annars verið gert með því að taka upp alþjóðlegar skuldbindingar, annars vegar Palermó-samning Sameinuðu þjóðanna, sem kveður á um aðgerðir gegn mansali, og hins vegar samning Evrópuráðsins um aðgerðir sem tóku gildi árið 2012. Sjálf hef ég farið á vegum nefndar í Norðurlandaráði til Lettlands til að ræða þessi mál við þarlend yfirvöld, en í Eystrasaltslöndunum, hjá frændþjóðum okkar, er mansal landlægt því miður.

Athygli vekur að konan sem var haldið nauðugri á hóteli hér í bæ gerði sér alls ekki grein fyrir réttindum sínum fyrr en hún fékk í hendur bækling frá ASÍ um réttindi fólks á vinnumarkaði hér á landi og ákvað í kjölfarið að leita til lögreglu. Þetta sýnir að mínum dómi hvað það er mikilvægt að allir haldi vöku sinni, starfsmenn í fyrirtækjunum og aðrir sem grunar að eitthvað óeðlilegt kunni að vera á ferðinni.

Ég endurtek það, virðulegi forseti, að ég skora á borgara þessa lands að vera vakandi fyrir þessari óværu.


Efnisorð er vísa í ræðuna