145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að árétta nokkur atriði. Varðandi fjármögnun millidómstigsins er það að fullu fjármagnað. Það kom fram í umræðunni að spurningum um fjárhagshliðina hefði verið beint til ráðuneytisins sem ekki hefði verið svarað en okkur barst skriflegt svar frá ráðuneytinu, sem var sent áfram á nefndina. Þar kemur þetta skýrt fram. Áætlaður kostnaður liggur fyrir og hvað er gert ráð fyrir að komi af fjármunum í það. Eins förum við aðeins yfir það í nefndaráliti okkar.

Varðandi þær breytingartillögur sem liggja frammi eru þær þrjár, tvær frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni og ein frá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni sem ekki gat verið við umræðuna í dag. Hún varðar þinghána hjá þeim sem komu frá Hornafirði. Hornfirðingar hafa valið að leita meira suður og við breytingarnar á löggæslu í sýslumannsumdæmunum fóru þau mál yfir á lögreglustjórann á Suðurlandi og sýslumannsembættið á Suðurlandi sinnir þessu svæði. Tillaga hv. þm. Vilhjálms Árnasonar lýtur að því að færa dómþinghána einnig á Suðurland frá Austurlandi.

Fyrir liggur önnur breytingartillaga frá hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur og fleirum. Ég fór aðeins yfir það áðan að það er frumvarp til umsagnar á vef innanríkisráðuneytisins um það hvernig dómarar skuli skipaðir en við förum ekki í neinar breytingar á þeim ákvæðum vegna þess að það frumvarp er væntanlegt, svo að það komi aftur skýrt fram.

Að lokum langar mig að þakka þeim ráðherrum sem hafa komið að þessu máli, sem eru fjölmargir. Miðað við greinargerðina með frumvarpinu hefur verið unnið að þessu máli allt frá árinu 1972, ef mig minnir rétt. Sú vinna sem við byggjum á á rætur að rekja í stjórum dráttum til nefndar sem þáverandi ráðherra og núverandi hv. þm., Hanna Birna Kristjánsdóttir, skipaði og Kristín Edwald lögmaður leiddi. Það ber auðvitað að þakka þeim sem hafa lagt grunninn. Það var líka mikilvæg vinna unnin undir stjórn hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem þá var ráðherra, og svo var málið lagt fram í tíð núverandi hæstv. ráðherra Ólafar Nordal. Þessum aðilum ber að þakka sem og nefndinni sjálfri, starfsmönnum innanríkisráðuneytisins og okkar ágæta nefndarritara Kristínu Einarsdóttur.