145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur einkarekstur í heilbrigðiskerfinu verið aukinn. Arðbærustu fyrirtækin í heilbrigðisgeiranum geta greitt sér út tugi milljóna í arð til hluthafa sinna á hverju ári. Þau fyrirtæki eru að langmestu leyti fjármögnuð með skattfé almennings í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt fjölgun einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu en ætlar hins vegar að banna arðgreiðslur þeirra. Hvernig ætlar ríkið og heilbrigðisráðherra að fylgjast með því að ekki sé greiddur út arður? Í dag er ekkert eftirlit með því af hálfu ríkisins hve mikill arður er tekinn út úr einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum á Íslandi. Það er mikill stuðningur meðal þjóðarinnar við ríkisrekið heilbrigðiskerfi og það hefur margsinnis komið fram í skoðanakönnunum. Það hefur verið varað við því að aukinn einkarekstur geti komið niður á rekstri Landspítalans og heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið. Við þekkjum að það er stöðug samkeppni um fjármagn á milli einkarekinnar sérgreinalæknaþjónustu og annarrar heilbrigðisþjónustu í opinberum rekstri. Einkavæðingu í félagslega heilbrigðiskerfinu fylgja ýmis vandamál og álitaefni. Einkafjármögnun dregur úr aðgengi að heilbrigðisþjónustu, ekki síst meðal þeirra sem hafa lægstar ráðstöfunartekjur. Þess vegna tel ég að við þurfum að standa vörð um opinbera heilbrigðiskerfið okkar. Vinstri græn vilja stórauka fjármagn til opinbera heilbrigðiskerfisins því að það er mjög hættulegt þegar miklar arðgreiðslur renna út úr einkarekinni heilbrigðisþjónustu, af því að það mun bitna á fjármögnun heilbrigðiskerfisins í heild á Íslandi.


Efnisorð er vísa í ræðuna