145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs.

[10:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er alls ekki í einhverjum pólitískum ágreiningi. Ég er bara að reyna að fá fram hvað er að gerast í þessum mjög svo veigamikla þætti í uppbyggingu atvinnuvega í landinu. Það er t.d. skemmtilegt að sjá í svona köku um þjóðartekjur að það er komið eitthvað sem heitir „annað“ og er komið yfir 10%. Við hljótum öll að vilja vinna að því. Þá vil ég segja að það hefur reynst mér vel í gegnum lífið, þegar ég er að skoða það sem heyrir starfi mínu til, að segja bara staðreyndirnar nákvæmlega eins og þær eru en ekki eins og mér finnst vera pínulítið í þessu svari, pínulítið í hina áttina, það er betra að segja hlutina nákvæmlega eins og þeir eru.

Nú er þessi áætlun frá 2014–2016 og mig langar að spyrja ráðherra hvort í undirbúningi sé að gera nýja aðgerðaáætlun og hve langt hún sé komin. Er hann byrjaður á henni?