145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[11:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni styðjum þetta mál eins og við höfum ætíð gert; við höfum ýmist staðið að málum sem þessum eða stutt þau. Á síðasta kjörtímabili fórum við með endurgreiðsluna upp í 20% og á þeim tíma mætti það svolítilli andstöðu þannig að við lögðum í talsverða vinnu til að taka saman hvað þetta hefði í för með sér, þ.e. hvaða áhrif þetta hefði á íslenskt efnahagslíf. Þær athuganir sýndu að áhrifin af þessu verkefni eru gríðarlega góð og mikil. Þau eru miklu víðar en við gerum okkur grein fyrir. Þetta er ekki bara mikilvæg hreyfing í efnahagslífinu, þetta eru ekki bara fjölbreytt störf heldur er þetta líka gríðarleg landkynning þannig að áhrifin eru víðtæk. Ég fagna því að við stöndum, enn og aftur þverpólitískt, að því að hækka þetta hlutfall. Ég vona að það eigi eftir að skila okkur enn meiri tekjum og að þessi samstaða um málið haldi áfram.