145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er rétt hjá framsögumanni þessa dagskrárliðar, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, að skattar eru svo miklu meira en að tala um hvort þeir séu háir eða lágir eða einhver einföld tekjuöflun. Það er spurning hvað á að skattleggja. Það er hægt að stýra svo miklu í þjóðfélaginu og búa til það þjóðfélag sem við viljum búa til með því að haga skattkerfinu á ákveðinn hátt. Auðvitað greinir okkur pólitískt á um hvernig eigi að haga skattkerfinu, enda er það svo mikið um það hvernig þjóðfélag við viljum búa til. Núna erum við með ríkisstjórn sem leggur mest upp úr því að lækka skatta og hún lækkar mest á þá sem mest hafa og hún lækkar skattana á fyrirtækin, veiðigjöld og afnemur orkuskatt. Þetta er allt í eina átt.

Ég hins vegar tilheyri þeim hópi á þinginu, jafnaðarmönnum, sem vill jafna kjörin í þjóðfélaginu. Við viljum gera það með því að nota skattkerfið.

Mig langar aðeins í lokin, af því að tíminn líður svo fljótt, að minnast á barnabæturnar. Ég tel að barnabætur eigi að vera þannig að þær séu viðbót við persónuafslátt. Fyrir hvert barn fær fólk hærri persónuafslátt. Síðan er það þannig með hina efnameiri í vel þrepaskiptu skattkerfi, þar sem skattur á hæstu tekjur er hár, að þeir sem í raun fá þennan skattafslátt greiða hann til baka.