145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[16:09]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Forseti. Já, ég tek þessa afsökun alveg fyllilega gilda. Ég tók ásökunina bara ekki nærri mér. Ég held að hv. þingmaður hafi verið að biðja mig fyrirgefningar á ásökunum. Ég lít afsökun allt öðrum augum en flestir aðrir í þessum heimi, en það er nú allt í lagi með það.

Ég vona að þegar við tökum þetta mál til umræðu í utanríkismálanefnd að það verði á einhverjum sæmilegum grunni svo það komi einhver skynsamleg niðurstaða í þetta mál. Það er nú ósköp einfaldlega þannig að viðskipti með landbúnaðarafurðir eru hluti af heimsviðskiptum, alveg eins og aðrar þjóðir kaupa mikið af matvælum frá Íslandi sem framleidd eru hér með sæmilega heilnæmum hætti og aðrar þjóðir framleiða matvæli með heilnæmum hætti hver á sinn hátt. Það er ekkert að óttast í þeim efnum.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, heldur bara segja það hér og nú að viðskipti í heiminum hafa heldur aukið á velferð jarðarbúa en einangrunarstefna hefur heldur rýrt lífskjör.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði hér um náttúru. Það er nú kannski það sem ræða þarf í íslenskum landbúnaði, hvort íslenska sauðkindin bryðji kannski í sig landið, jafnvel niður í rót. Það er nú partur af því sem þarf að ræða hérna, hvort sem það er í búvörusamningnum eða þessum kafla. Ég hef lokið máli mínu.