145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég vil í ræðu minni tala um mál Nígeríumannsins Ezes Okafors sem var vísað úr landi á fimmtudaginn í síðustu viku. Það gerðist þrátt fyrir að hann og lögfræðingur hans hefðu sótt um dvalarleyfi af mannúðarástæðum á Íslandi. Það gerðist þrátt fyrir að kærunefnd útlendingamála hefði gefið út að líklega væri fresturinn liðinn til að vísa honum á brott á grunni Dyflinnarreglunnar. Það gerðist þrátt fyrir að ljóst væri að sænsk yfirvöld muni ekki taka á máli hans og hafi gefið honum eina viku, þ.e. til dagsins í dag, til að gefa sig fram til að vera vísað til baka til Nígeríu, þaðan sem hann flúði ofsóknir og Boko Haram og á það á hættu að vera handsamaður af þeim og drepinn. Þetta mál er alveg ótrúlega sorglegt og mjög erfitt að átta sig á því hvað er í gangi í því kerfi sem tekur á hælisleitendum og öðrum sem sækja hér um skjól. Það er óskiljanlegt að vísa fólki frá landinu sem bíður eftir málsmeðferð innan íslenska kerfisins, senda það út í algjöra óvissu með allri þeirri andlegu vanlíðan sem því fylgir.

Kannski er það ótrúlegast í þessum málum öllum að á sama tíma og við sendum þetta vesalings fólk úr landi, sem hefur dvalið hér árum saman, takið eftir því, og hefur aðlagast íslensku samfélagi, flytjum við inn heilu flugvélafarmana af erlendu vinnuafli, vinnuafli sem sér um að vinna öll erfiðustu og lægst launuðu störfin í landinu. Ef allar áætlanir og spár ganga eftir hvað varðar uppbyggingu á atvinnumarkaði á næstu árum mun vanta þúsundir af útlendingum til að manna þessi störf. Hvaða endemis rugl er í gangi, herra forseti? Ég skora á hæstv. innanríkisráðherra að beita sér fyrir því að Eze Okafor verði sóttur til Svíþjóðar og honum veitt landvistar- og atvinnuleyfi hér á landi og tryggja þannig að hann verði ekki sendur aftur til Nígeríu. Annað væri ömurlegt, þetta er algjörlega óskiljanlegur gjörningur og þjóð sem kennir sig við lýðræði og mannúð til skammar.

Hættum, herra forseti, að taka hræðilegar ákvarðanir eins og við höfum verið að gera í þessum málaflokki. Þetta er ekkert fyrsta málið, ég minni á mál sýrlensku fjölskyldunnar sem var hérna í febrúar. Gefum þessu fólki séns, sýnum því samkennd og gefum því möguleika á því að lifa mannsæmandi lífi í friði, því að það er það sem það sækist eftir.


Efnisorð er vísa í ræðuna