145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fjalla um það sem aðrir hv. þingmenn hafa nefnt í sambandi við Eze Okafor sem var nauðugur sendur úr landi, gegn vilja sínum. Hann var tekinn með valdi. Stundum nefni ég það, eins og margir, að það er ekki alltaf við Útlendingastofnun að sakast, stundum eru lögin einfaldlega ómanneskjuleg, og á köflum eru þau það. En með tímanum hrannast upp dæmin þar sem maður skilur ekki, ekki einu sinni út frá gildandi lögum, hvernig í ósköpunum mönnum dettur í hug að vinna svona.

Það er við Útlendingastofnun að sakast, það er við stjórnmálamenn að sakast, hvernig farið er í málum eins og hjá Eze. Ég skil mætavel að stjórnmálamenn vilji ekki tala um einstaka mál, að einstaka stofnanir vilji ekki tala um einstaka mál, en þetta eru einstaka mál. Þetta eru einstaklingar og við berum ábyrgð á þeim.

Það eru ríkari heimildir víða í gildandi lögum um útlendinga þar sem hægt er að taka mið af sanngirnisástæðum og því um líku. Það er ekki skylda íslenskra yfirvalda að beita Dyflinnarreglugerðinni eins og íslensk yfirvöld gera. Það er óþolandi hvernig íslensk stjórnvöld láta, eins og það sé skylda þeirra að framfylgja því sem er bersýnilega vilji þeirra, að koma svona fram við fólk.

Eze bjó hérna í fjögur ár, hann á hér vini, hann á hér líf. Hvers vegna í ósköpunum er hann ekki á þessu landi? Hvernig dettur mönnum í hug að verja þessa vitleysu? Það er kominn tími til að við tökum okkur saman í andlitinu og hættum að koma fram við þetta fólk eins og dýr.


Efnisorð er vísa í ræðuna