145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er margt sem komið hefur fram undir þessum lið í dag sem ég tek undir, þá sérstaklega varðandi mál innflytjandans sem rætt var áðan. Eins vil ég, líkt og hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir, kalla eftir menntastefnu stjórnvalda. Ég hef reyndar gert það í skriflegri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra en fékk bréf þess efnis að hann óskaði eftir fresti, sem ég hef reyndar ekki veitt honum en hann tekur sér bara frest til þess. En það er brýnt að fá að vita hvaða stefna liggur fyrir þegar farið er út í mál eins og LÍN-frumvarpið sem nú er komið fram. Maður þarf að vita um forsendurnar sem liggja þar að baki. Inn í það fléttast nám erlendis o.s.frv.

Ég kem hingað upp til að inna eftir því hvar frumvarp um Fæðingarorlofssjóð er. Það hefur ítrekað komið fram hér og hjá hæstv. félagsmálaráðherra að hún hyggist hækka þakið hjá Fæðingarorlofssjóði fyrir lok kjörtímabilsins. Það ræddi ég við hæstv. ráðherra í þarsíðustu viku, að mig minnir. En ekkert bólar á því frumvarpi og við vitum að við erum að fara að taka þinghlé núna á morgun. Hverju sætir það? Eru ríkisstjórnarflokkarnir ekki sammála um málið? Strandar það í ríkisstjórn? Við höfum heyrt að ráðherrar Framsóknarflokks vilja fá málið áfram, en hvað með ráðherra Sjálfstæðisflokksins?

Við sjáum að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þurfa ekki að virða nein tímamörk með framlagningu mála hér. Hæstv. menntamálaráðherra kemur bara allt í einu fram með LÍN-frumvarpið. Af hverju ekki þetta mál? Við gætum tekið á móti því (Forseti hringir.) í dag og afgreitt það á morgun. Til væri ég.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna