145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[12:17]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim þingmönnum sem að þessu verki hafa komið og þakka hlý orð í minn garð. Ég vil hins vegar árétta og minna þingheim á að það er ekki ákvörðun einstaks ráðherra að tryggja svona vinnulag. Það er ekki sjálfgefið og ég vil þakka fyrir það. Það er ekki sjálfgefið að stjórnarandstaða í svona viðkvæmum og erfiðum eldfimum pólitískum málum kjósi að taka þátt í þeim. Ég var mjög þakklát fyrir það þegar ég sem innanríkisráðherra upplifði á sínum tíma hversu erfitt viðfangsefni þetta væri og hversu flókið það gæti verið þegar stjórnarandstaðan tók því fagnandi að hefja þessa vinnu og veita henni forustu. Ég þakka hv. þm. Óttari Proppé sérstaklega fyrir það.

Ég nýtti mér það mjög mikið í mínum störfum sem ráðherra að fá þingmenn til þess að leiða starfið og reyna að gera það með þverpólitískum hætti. Ég verð að segja það sem mína reynslu af því að það var ekki erfitt að taka þá umræðu eða byggja slíkan þverpólitískan vettvang á þinginu. Það var hins vegar erfitt að finna því stað og fá því framgengt og fá kerfið til að vinna með mér sem ráðherra í því. Það var miklu flóknara að fá í gegn jákvæðan skilning á því innan ráðuneytis, innan kerfis og innan stofnana að þannig skyldu hlutirnir unnir en að fá það samþykkt og unnið með það á þingi. Það er umhugsunarefni, ekki bara fyrir stjórnmálamenn heldur líka fyrir almenning, að það eru ekki endilega stjórnmálin sem standa gegn því. Stundum eru það bara gamlar hefðir (Forseti hringir.) og hugmyndir um hvernig kerfið skal vinna og því verður að breyta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)