145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

789. mál
[12:59]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/?2006. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Baldur P. Erlingsson, Jóhann Guðmundsson og Hinrik Greipsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Í tillögunni er kveðið á um hvernig ráðstafa skuli því aflamagni sem dregið er frá heildarafla í hverri tegund samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða. Í tillögunni felst ekki mikil breyting frá því sem kveðið er á um í gildandi þingsályktun nr. 15/144 en nefna má að aukið er við aflamagn til stuðnings byggðarlögum og til aflamarks Byggðastofnunar auk þess sem lagt er til minna magn til áframeldis á þorski.

Nefndin leggur til að tillagan verði ekki bundin við fiskveiðiárið 2016/2017 og leggur því til breytingu á tillögugrein í þá veru. Hins vegar mælist nefndin til þess að ályktunin sæti endurskoðun fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 verði tillagan samþykkt.

Jafnframt leggur nefndin til að 8. töluliður tillögugreinarinnar falli brott en þar er kveðið á um að allt að 1.000 tonn verði lögð til hliðar til sérstakra tímabundinna ráðstafana.

Við mælum með því að málið verði samþykkt með þeirri breytingartillögu sem hér var farið yfir. Undir þetta skrifa Jón Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, með fyrirvara, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Björt Ólafsdóttir, með fyrirvara, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.