145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands (Montenegró).

788. mál
[14:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Samfylkingin styður þetta mál af miklum krafti og sannfæringu. Ég tel sjálfur að það sé framfaraskref að samþykkja þessa tillögu. Það er tvennt sem veldur því sérstaklega. Í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar að sjálfsákvörðunarréttur þjóða sé hafinn yfir allan vafa og sé grundvallarréttur. Svartfellingar hafa sjálfir kosið sér þetta hlutskipti. Þeir telja að öryggi sínu og fullveldi sé betur borgið innan Atlantshafsbandalagsins en utan þess. Þeir sjá í því ákveðið traust og ákveðinn bakhjarl sem gæti reynst þeim betur en enginn ef skærist í odda í álfunni. Það hafa oft verið minni viðsjár uppi en núna. Ég skil fullkomlega viðhorf þeirra. Ófriður í Evrópu hefur oftar en ekki stafað af átökum sem hafa orðið á Balkanskaga og því miður sýnir framvindan á okkar æviferli sem hér sitjum og stöndum í dag að það virðist lítið lát á því að þaðan geti stafað töluverðri óöld. Svartfellingar telja að framtíð sinni sé betur borgið innan vébanda Atlantshafsbandalags en utan. Það er þeirra réttur. Þeir hafa sótt um. Þeir hafa uppfyllt skilyrðin. Þá tel ég að ekki sé hægt annað en að verða við þeirra óskum. Íslendingar hafa sömuleiðis alltaf stutt hina svokölluðu, með leyfi forseta, „Open Door Policy“ bandalagsins, þ.e. að gáttir þess skulu standa opnar ríkjum sem uppfylla skilyrðin.

Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að jafn mikið sem ég vildi sjá veröld þar sem ekki væri þörf á varnarbandalögum þá hefur heimurinn þróast þannig á allra síðustu árum að við erum heldur að hverfa í átt frá friði en til friðar. Við sjáum að það hefur orðið gjörbreyting í álfunni. Það eru styrjaldir og átök á báðum jöðrum hennar. Við sjáum líka að þeir sem við höfum gjarnan litið á sem hugsanlega uppsprettu ógna hafa skakað skellum sínum í miklu ríkara mæli en áður. Það þarf ekki annað en að horfa til Úkraínu og skoða atburðarásina sem þar er uppi til þess að fyllast nokkurri tortryggni um einlægan vilja allra Evrópuþjóða til að halda friðinn. Menn gætu skilgreint Úkraínuskærurnar hugsanlega í tvennt, annars vegar þær sem tengjast Krím, hins vegar þær sem tengjast austurhluta Úkraínu. Látum vera með Krím. Ég tel að vísu að Rússar fari með lögleysu, en það eru margir jafnvel í þessum sal sem telja að hægt sé að tína til rök til þess að styðja framferði þeirra þar. Þau rök hafa verið færð í þessum ræðustól. Ég ætla ekki að tefja tímann með því að fara yfir þau. Hitt er alveg ljóst að framferði þeirra í austurhluta Úkraínu gefur fyllsta tilefni til þess að sum ríkja í nágrenninu óttist.

Ég rifja það líka upp að ég hef a.m.k. í gegnum minn þingferil alltaf stutt þær tillögur sem hér hafa verið um stækkun Atlantshafsbandalagsins. Sérstaklega var það umdeilt á 9. áratugnum þegar þrjú ríki, þ.e. Eystrasaltsríkin, sóttu um aðild að bandalaginu. Það var talið líklegt til þess að styggja Rússa og talið líklegt til þess þá heldur að auka ófrið í álfunni, draga úr friðarlíkum. Á þeim tíma voru ýmsar Norðurlandaþjóðir annarrar skoðunar en við Íslendingar. Á Alþingi stóðu allir utan einn flokkur að því að samþykkja þá tillögu. Íslenskir jafnaðarmenn skáru sig úr að því leyti til að þeir fylgdu ekki norrænum jafnaðarmönnum. Við stigum skrefi lengra en þeir eða vorum á undan í því að fallast á að Eystrasaltsþjóðirnar ættu sér sinn seturétt innan bandalagsins.

Hvernig hefur sagan leikið ákvörðun okkar sem studdum þetta þá? Í dag er sú staða uppi í Evrópu að enginn þarf að ganga gruflandi að því að ef Eystrasaltsþjóðirnar væru ekki aðilar að NATO, ef þær nytu ekki verndar 5. gr. sáttmálans, væri staða þeirra miklu, miklu ótryggari í dag en hún er. Ef við skoðum það hvernig Rússar hafa farið fram í Austur-Úkraínu þar sem þeir hafa tekið upp nýja tegund stríðs, eins konar skuggastríðs þar sem þeir hafa bersýnilega verið að reyna á þolrifin í 5. gr. og kanna með hvaða hætti Atlantshafsbandalagið skilgreinir þá grein og hvenær hún á við og hvenær ekki, þá tel ég að það sé alveg ljóst að ef Eystrasaltsþjóðirnar þrjár nytu ekki þess öryggis sem felst í vernd 5. gr., þá væri framtíð þeirra miklu ótryggari og enginn gæti slegið því föstu að þau yrðu fullkomlega óhult við þá þróun sem uppi er. Þetta finnst mér vera veröldin eins og hún blasir við. Í því ljósi skil ég það mjög vel að smáríki sem hafa margoft lent í hörðum átökum á ferli sínum sem sjálfstæðar þjóðar, og líka sem ósjálfstæðar þjóðir, leiti eftir hinu sama og Eystrasaltsþjóðirnar gerðu á sínum tíma og við gerðum líka miklu fyrr, þ.e. reyni að verða sér úti um þá vernd sem felst í 5. gr. sáttmálans.

Þess vegna segi ég það, ég tel að það sé réttur Svartfellinga að sækja um, þeir hafa notfært sér þann rétt. Bandalagið hefur látið þá ganga í gegnum hvers konar áreynslur og áraunir til þess að kanna hvort þeir séu hæfir til þess að vera hluti af bandalaginu. Niðurstaðan er þessi: Þeir standast mælikvarðana. Þeir hafa lýst ótvíræðum vilja til þess að vera hluti af bandalaginu. Þá er það eiginlega út í hött ef Íslendingar ætluðu að standa gegn því. Þess vegna styð ég mjög eindregið að tillagan verði samþykkt.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þá ræðu sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir flutti áðan. Hún hefur fullkominn rétt til þess að hafa sínar skoðanir. Það er vel hægt að fallast á þau viðhorf hennar að æskilegt væri að heimurinn þyrfti ekki á varnarbandalögum að halda. En í stuttu máli: Flestum þeim rökum sem mér fannst hún flytja fyrir máli sínu áðan er ég fullkomlega ósammála.

Þessi tillaga sýnir að Íslendingar standa enn og aftur með smáþjóðum og virða rétt smáþjóða til þess að taka hvaða þá ákvörðun sem þær sjálfar kjósa til þess að búa sér framtíð sem þær telja sér ákjósanlega og heillavænlega.