145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

félagsleg aðstoð.

776. mál
[16:45]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og varðar styrki til bifreiðakaupa og uppbætur til reksturs bifreiða, meðal annars til fatlaðs fólks og lífeyrisþega. Í 10. gr. laganna er kveðið á um heimild til að veita slíka bifreiðastyrki til þeirra sem sannarlega þurfa bifreiðar, ef það er nauðsynlegt því fólki til að lifa sjálfstæðu lífi. Þar er bara almennt mælt fyrir um þessa heimild. Hins vegar hefur málum um langt skeið verið þannig háttað í reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, nr. 170/2009, að skorður eru reistar við þessum styrkveitingum og veitingu á uppbót. Skorðurnar eru að mati okkar flutningsmanna, og að ég hygg margra annarra, alveg stórfurðulegar, ómálefnalegar og storka hugmyndum manns um mannréttindi og skynsamlega velferðarpólitík. Skilyrðin eru sem sagt þau, samkvæmt reglugerðinni, að hreyfihamlaðir geta ekki fengið styrki til bifreiðakaupa eða reksturs bifreiða öðruvísi en að vera sjálfir með ökuréttindi og það sér hver maður að það getur nú verið mörgu þessu fólki mjög erfitt og útilokað raunar að vera með ökuréttindi, en engu að síður þarf fólkið bifreið, hún er því algjörlega nauðsynleg. Ef fólkið er hins vegar ekki með ökuréttindi þá eru settar þær skorður í reglugerðinni og þau skilyrði að innan heimilisins, skráður á sama lögheimili, verði að vera einstaklingur með ökuréttindi; þannig að fólk fái ekki þennan styrk nema það hafi ökuréttindi sjálft, sem allir sjá að getur verið óyfirstíganleg krafa, algjörlega óyfirstíganleg, eða hitt að fólkið búi með manneskju sem er með ökuréttindi. Hér er framkvæmdarvaldið að setja það skilyrði fyrir veitingu nauðsynlegs styrks til fólks, m.a. hreyfihamlaðs fólks, að það búi með tilteknu fólki; það getur sem sagt ekki ákveðið að búa eitt og fá styrkinn.

Við, flutningsmenn tillögunnar, teljum að þetta standist ekki. Ég veit að fleiri hafa flutt svona tillögur. Ég hef tekið þátt í því á fyrri þingum að flytja tillögur þar sem reynt er að ráða bót á þessu. Við flytjum einfaldlega tillögu um að allur vafi verði tekinn af hvað varðar þetta atriði. Út af fyrir sig þarf bara að breyta reglugerðinni og afnema þetta. Í frumvarpinu segir:

„Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Styrkir og uppbætur til bifreiðakaupa og reksturs bifreiða skulu veitt óháð því hver annast að jafnaði akstur bifreiðanna, enda sé bifreiðin nýtt til aksturs með bótaþega.“

Það er aðalatriðið að bifreiðin nýtist bótaþega, burt séð frá því hver ekur henni.

Og áfram segir:

„Óheimilt er að binda styrkveitingar því skilyrði að bótaþegi hafi sjálfur ökuréttindi eða einhver annar á heimili hans.“

Tökum dæmi. Manneskja sem fær uppbót eða styrki til reksturs eða kaupa á bifreið er kannski í sambúð og fær svo styrkinn. Síðan ákveður hún að skilja og fær þá ekki styrk. Þetta finnst mér einfaldlega vera brot á ákveðnum grundvallarmannréttindum fólks, það hlýtur að mega ákveða sjálft með hverjum það kýs að búa ef einhverjum, að ekki sé verið að hengja nauðsynlegar styrkveitingar til lífsviðurværis utan á það með hverjum fólk ákveður að búa. Það getur ekki verið málefnalegt eða staðist grundvallarkröfur um mannréttindi.

Ég vil líka setja þetta mál í samhengi við annað. Hér á Alþingi hefur sú stefna verið mörkuð að taka skuli upp notendastýrða persónulega aðstoð sem einn meginvalkost í þjónustu við fatlað fólk. Það er þjónustuform sem gerir ráð fyrir því að fólk geti lifað sjálfstæðu lífi, stjórnað sínu lífi sjálft, og að það geti búið eitt ef það svo kýs. Í þeim tilvikum gengur þetta þjónustuform út á það að aðstoðarfólk ekur bifreiðunum. Það er fullkomlega fáránlegt að vera að gera þá kröfu í styrkveitingu til bifreiðakaupa til fólks með NPA að aðstoðarfólk hafi lögheimili á sama stað og sá einstaklingur sem í hlut á. Það er bara út í hött. Það er eitthvað verulega skrýtið í gangi í þessari reglugerð og getur varla verið málefnalegt að binda styrkveitingar slíkum skilyrðum. Við gerum einfaldlega þá kröfu að tekinn verði af allur vafi um að þetta megi ekki vera svona með lögum eða að umfjöllun í velferðarnefnd verði þá til þess að ráðherra breyti reglugerðinni, en það getur ráðherra gert á einum eftirmiðdegi og yrði þá sama markmiði náð.

Við eigum að hafa alla lagaumgjörð um svona mál þannig að lágmarkskröfum um mannréttindi sé mætt og fólki treyst til að ákveða sjálft hvort það býr með einhverjum eða ekki, að við bindum ekki nauðsynlegar styrkveitingar því skilyrði að fólk búi með einhverjum sem það vill kannski ekki búa með.