145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

samstarf Íslands og Grænlands.

23. mál
[17:49]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki frekar en sá sem steig í pontu á undan mér að lengja umræðuna mikið. Ég vildi einungis gera líkt og félagar mínir í hv. utanríkismálanefnd hafa gert hér áður, þakka fyrir þessa vinnu. Þetta er svona dagur þar sem þakkirnar ganga á milli manna sem er ágæt tilbreyting á þessum vettvangi. Ég vil þakka fyrir hversu vel þetta var unnið. Við gáfum okkur ágætan tíma í að fá gesti og fyrir okkur sem þekkjum ekki eins mikið og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra til samskiptanna á milli þessara tveggja þjóða var það gagnlegt og upplýsandi. Ég held að fyrst og síðast séum við hér að senda skýr skilaboð frá þingi til stjórnvalda, sem ég veit reyndar að er unnið að á þeim vettvangi, um að við viljum aukna samvinnu við Grænlendinga, við viljum virða stöðu þeirra og vilja til þess að gera hlutina með sínu lagi, en við viljum einnig tryggja það að við komum góðu til leiðar þar og njótum einnig góðs af þeirri samvinnu.

Fyrst og síðast vildi ég þakka hv. flutningsmanni málsins, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, framsögumanni og félaga — nú er ég farin að kalla hann félaga eins og ekkert sé sjálfsagðara, en hann er það á þessum vettvangi, hv. þm. Óttari Proppé og öðrum í utanríkismálanefnd fyrir að afgreiða málið fljótt og örugglega á tveimur fundum nefndarinnar í gær og ég vona að um þetta náist góð samstaða.