145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

áhættumat vegna ferðamennsku.

326. mál
[20:25]
Horfa

Frsm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um áhættumat vegna ferðamennsku, mál sem ég er fyrsti flutningsmaður að ásamt þingmönnum úr öllum flokkum. Það er sérstök ánægja að fá að mæla fyrir þessu nefndaráliti sem atvinnuveganefnd stendur öll að.

Nefndin hefur fjallað um málið og borist umsagnir frá Ferðamálastofu, Höfuðborgarstofu, Isavia ohf., Íslandsstofu, Landgræðslu ríkisins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni og Veðurstofu Íslands.

Í tillögunni er lagt til að innanríkisráðherra verði falið að undirbúa áhættumat fyrir Ísland með tilliti til ferðamennsku. Kveðið er á um að ríkislögreglustjóri geri áhættumatið eftir atvikum í samráði við t.d. Ferðamálastofu, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Umhverfisstofnun. Þá verði metið hvort setja þurfi sérstakar reglur um ferðir á svæðum sem falla í efsta áhættuflokk.

Tillaga sama efnis var lögð fram á 143. og 144. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Markmið tillögunnar er að fækka slysum og óhöppum ferðamanna í óbyggðum og utan alfaraleiða. Brýnt er að efla öryggi ferðamanna hér á landi, ekki síst þar sem þeim hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum.

Nefndin bendir á að í áhættumatinu verði m.a. skoðuð viðbrögð við hópslysum en vandasamt getur verið að bregðast við slíkum slysum hér á landi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Björt Ólafsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit rita sú sem hér stendur, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, og hv. þingmenn Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Kristján L. Möller, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu mjög ferðamönnum hefur fjölgað hér á landi undanfarin ár, en reiknað er með að um 1,5 milljónir ferðamanna sæki Ísland heim á þessu ári. Margir þeirra ferðamanna sem hingað koma hafa lagt leið sína til landsins í því skyni að njóta hins sérstæða náttúrufars landsins og ferðast um það í þeim tilgangi, bæði um alfaraleiðir og fáfarnar slóðir. Ferðaiðnaðurinn hefur vaxið og dafnað og er nú mikilvægur atvinnuvegur. Ekki er ástæða til annars en að fagna þessari viðbót við atvinnuvegi landsmanna, en jafnframt er mikilvægt að gefa gaum að því að bæði velferð ferðamannanna og hagsmunir atvinnugreinarinnar krefjast þess að gerðar verði ráðstafanir til að styrkja innviði samfélagsins þannig að hægt sé að takast á við þær áskoranir sem fylgja hinum mikla og ört vaxandi ferðaiðnaði síðustu ára. Öryggismál ferðafólks og ferðaþjónustunnar eru meðal þess sem mikilvægt er að sinna af árvekni og natni.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er bent á ráðstafanir sem gerðar hafa verið á Grænlandi og Svalbarða þar sem eru mikil víðerni og óbyggðir, rétt eins og hér á landi, sem dæmi um viðbrögð vegna ferðamennsku á slíkum landsvæðum. Enda þótt aðstæður séu með allnokkuð öðrum hætti hér á landi og skipulag Grænlendinga og Norðmanna verði ekki innleitt hér á landi breytingalaust er hitt fullvíst að meta þarf með skipulögðum hætti þá áhættu sem getur fylgt ferðamennsku á Íslandi og gera ráðstafanir í samræmi við niðurstöðu þess.

Unnt er að nefna ýmsa þætti sem slíkt áhættumat mundi gagnast. Það mundi tvímælalaust gagnast ferðamönnum við að skipuleggja ferðir sínar og upplýsa þá um hættur og vandkvæði sem gætu fylgt ferðum á ákveðnum slóðum. Áhættumat mundi einnig nýtast aðilum í ferðaþjónustu, björgunarsveitum og opinberum aðilum sem vinna að öryggismálum almennings og slysavörnum og ætti þannig að verða til þess að auka gæði ferðaiðnaðarins í heild sinni og efla orðspor hans.

Auk þeirra afleiðinga sem sá einstaklingur verður fyrir sem lendir í slysi hafa slysfarir jafnan mikinn samfélagslegan kostnað í för með sér, sem m.a. getur falist í leitar- og björgunaraðgerðum auk kostnaðar í heilbrigðiskerfinu.

Af framantöldum ástæðum er augljóslega öllum fyrir bestu að slys verði eins fá og unnt er og má bæta því við að mikil slysatíðni ferðamanna eða fjöldaslys hér á landi yrði án efa til að rýra orðspor landsins sem ferðamannalands. Það eru því margvíslegar ástæður til að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana sem reistar eru á þekkingu á íslenskum staðháttum, eins og hér er lagt til, og verður vonandi til þess að koma í veg fyrir slys á ferðamönnum og fækka heildarfjölda slíkra atvika. Gangi það eftir er tilgangi þessa máls náð fram.

Það er vissulega verið að vinna að þessum málum í Stjórnstöð ferðamála. Ég tel það vera gott innlegg inn í þá vinnu að þeir aðilar komi að borðinu sem hafa verið nefndir og innanríkisráðherra sé falið að undirbúa áhættumat fyrir Ísland með tilliti til ferðamennsku. Við verðum að undirbúa okkur undir komu mikils fjölda ferðamanna til landsins. Hálendi okkar getur verið viðsjárvert á mörgum svæðum og þess vegna tel ég mjög gott ef það næst að afgreiða þetta mál á þingi. Allt er þegar þrennt er. Þetta er í þriðja skipti sem málið a.m.k. kemst það langt að ég reikna með að það fái góðar viðtökur í atkvæðagreiðslu síðar.