145. löggjafarþing — 130. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[20:54]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

Óumdeilt er að aðgerðir Félags íslenskra flugumferðarstjóra gegn Isavia hafa töluverð áhrif, þar með talið á ferðaþjónustu og fyrirtæki tengd henni, auk inn- og útflutnings og ferða almennings til og frá landinu. Markmið með aðgerðum af þessu tagi er að hafa áhrif á þriðja aðila og því óhjákvæmilegt að þær hafi áhrif á samfélagið með ýmsu móti. Áhrifin þurfa að vera mjög alvarleg og ógna ótvíræðum almannahagsmunum eða valda efnahagslegri vá til að unnt sé að réttlæta lagasetningu. Mat minni hlutans er að ekki hafi verið færð rök fyrir því að slíkar aðstæður séu uppi við núverandi kringumstæður.

Verkfallsrétturinn er grundvallarþáttur í rétti stéttarfélaga til að semja um kjör félagsmanna sinna og nýtur verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Þessum rétti má ekki setja skorður nema brýna nauðsyn beri til í þágu almannahagsmuna. Við mat á þeirri nauðsyn ber að líta til þess að það er beinlínis tilgangur verkfalla að setja þrýsting á gagnaðilann til að knýja hann til samninga.

Það er á ábyrgð samningsaðila að ná samningum. Ef þeir bregðast því hlutverki hefur ríkissáttasemjari samkvæmt lögum ýmsar leiðir til að knýja á um niðurstöðu. Allar slíkar leiðir þarf að fullnýta áður en inngrip löggjafans geta komið til álita. Ekki verður séð að viðsemjendur flugumferðarstjóra hafi gert neinar afgerandi tilraunir til að nálgast sjónarmið þeirra. Fram hefur komið að þótt mikið beri í milli samningsaðila séu samningar ekki fullreyndir.

Dómstólar hafa ekki hafnað því að löggjafinn grípi inn í kjaradeilur, svo fremi sem ríkir almannahagsmunir séu í húfi eða efnahagsleg vá vofi yfir. Í því sambandi er rétt að vísa til dóms Hæstaréttar í máli ASÍ gegn ríkinu nr. 167/2002 þar sem fram kemur að dómstólar gera ríkar kröfur um skilgreiningu almannahagsmuna og afgerandi rökstuðning til að slík inngrip geti talist réttlætanleg og m.a. er vísað til ítarlegra lögskýringargagna. Í máli gesta fyrir nefndinni kom fram að vafi léki á því að þetta frumvarp stæðist þá sáttmála sem við erum aðilar að, m.a. reglur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Núverandi meiri hluti samþykkti á 143. þingi lög á verkfallsaðgerðir undirmanna á Herjólfi á grunni staðbundinna hagsmuna sem hæpið er að geti talist uppfylla þá ríku kröfu um skilgreiningu almannahagsmuna sem fram koma í fyrrnefndum dómi. Því er full ástæða til að gera athugasemdir við þá vegferð sem stjórnarmeirihlutinn virðist kominn á. Með lagasetningu á Herjólfsdeiluna gaf stjórnarmeirihlutinn skýr skilaboð til atvinnurekenda í greinum sem sinna mikilvægri þjónustu á borð við samgöngur um að gripið yrði inn í kjaradeilur við minnstu truflun á reglulegri starfsemi. Með því var samningsstaða launamanna veikt verulega og hún sett í mikla óvissu. Það er því komið á daginn að lögin á Herjólfsdeiluna voru mjög afdrifarík mistök eins og minni hlutinn varaði við á sínum tíma.

Óljóst er hvernig lögin munu leysa yfirvinnubann eða yfirvinnuþak flugumferðarstjóra. Yfirvinnuskylda er ekki fyrir hendi hjá flugumferðarstjórum og ljóst að lyktir málsins með gerðardómi gætu leitt til áframhaldandi stífni eða tregðu hjá flugumferðarstjórum til að vinna yfirvinnu. Þrátt fyrir orðalag 19. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur um hvað teljist vinnustöðvun og verkbönn eru fá svör við því hvernig skuli brugðist við þegar einstaklingarnir sem hér um ræðir neita að vinna yfirvinnu. Þá hlýtur snaraukin yfirvinna síðustu ára vegna aukins ferðamannastraums að hafa áhrif á hvað telst „eðlileg vinna“ sem er viðmið 19. gr. þegar vinnustöðvun er skilgreind.

Saga kjaradeilna flugumferðarstjóra á sér orðið langa forsögu og ljóst er að með því inngripi sem hér er á ferðinni yrði henni fram haldið um ókomna tíð. Árið 1997 samþykktu fulltrúar samgönguráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, auk flugumferðarstjórnar, svo og Félags íslenskra flugumferðarstjóra, margvíslegar úrbætur í starfsumhverfi og kjörum stéttarinnar. Meðal annars var lögð áhersla á að draga úr yfirvinnu flugumferðarstjóra, fjölga flugumferðarstjórum, semja til lengri tíma um kaup og kjör flugumferðarstjóra og taka mið af sérstöðu þeirra og kröfum sem til þeirra eru gerðar við ákvörðun launakjara.

Skemmst er frá því að segja að ekkert af þessu hefur verið gert á þeim tæpu tveimur áratugum frá því að samkomulagið var gert. Hér er því um að ræða framhald á þeim smáskammtalækningum sem ríkið, eigandi Isavia, hefur beitt í málefnum flugumferðarstjóra um áratugaskeið.

Hætt er við því að atvinnurekendur beri ekki lengur sína ábyrgð á því að ná niðurstöðu í samningum og treysti því að ríkisvaldið grípi inn í eins og hér er gert og taki þar með afstöðu með öðrum samningsaðilanum.

Síðan lög voru sett á undirmenn á Herjólfi, sem nefnd voru hér áðan, hefur þessi ríkisstjórn gripið til lagasetningar á verkföll flugvirkja, BHM, hjúkrunarfræðinga og flugmanna sem sömdu reyndar áður en lögin voru samþykkt. Þessar tíðu lagasetningar eru því áhyggjuefni og bera vott um virðingarleysi fyrir samningsrétti á vinnumarkaði. Minni hlutinn lýsir þess vegna áhyggjum yfir því að hér sé um endurtekna lagasetningu að ræða án stefnu af hálfu ríkisstjórnarinnar sem mun veikja verkfallsréttinn til frambúðar og hafa neikvæð og ófyrirséð áhrif á þróun vinnumarkaðarins. Ef viðsemjendur eru farnir að líta á lagasetningu á verkfallsaðgerðir sem eðlilegt inngrip er hætt við því að litlir hvatar séu til að ná samningum með hefðbundnum hætti.

Í stað lagasetningar nú væri eðlilegra að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að því að styrkja grundvöll heildarsamkomulagsins á vinnumarkaði, sem vísað hefur verið til sem SALEK, með áherslu á að finna sameiginlegan skilning á forsendum slíks samkomulags. Annars vegar þyrfti að horfa á félagslegan stöðugleika, ekki síður en efnahagslegan, og hins vegar að takast á við ólíkar kröfur á vinnumarkaði vegna launaþróunar síðustu ára.

Mögulega hefði horft öðruvísi við hér í dag ef stjórnvöld hefðu ákveðið að eyða deginum frekar í að tala við verkalýðshreyfinguna en að setja lög á kjaradeilur og skilja hana síðan eftir þegar skrifað var undir samkomulag um þjóðhagsráð eins og kynnt var hér í dag. Það er táknrænt að á sama tíma og sett eru lög á flugumferðarstjóra hafi verið tekin ákvörðun um að skilja verkalýðshreyfinguna eftir með þessu nýstofnaða ráði.

Lög á kjaradeilur virðast þannig vera orðin hluti af almennri kjaramálastefnu ríkisstjórnarinnar og fyrirsjáanlegur þáttur í viðbrögðum stjórnvalda við flóknum aðstæðum á vinnumarkaði. Það er ekki nóg að láta heildarsamkomulag við aðila á vinnumarkaði eingöngu snúast um að launamenn lækki launakröfur sínar og svo virða að vettugi allar kröfur um félagslegar úrbætur.

Virðulegi forseti. Undir þetta nefndarálit rita minnihlutafulltrúar í nefndinni, sú sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Svandísi Svavarsdóttur, Róberti Marshall og Ástu Guðrúnu Helgadóttur.