145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ofsögum sagt að einungis sé verið að færa þannig til fjármuni að þeir sem þurfi á námslánum að halda borgi fyrir alla hina. Þetta er ekki nákvæm lýsing á því sem hér er um að ræða. Vissulega er það svo að ákveðinn hópur námsmanna, sá sem tekur hæstu lánin og sums staðar mjög há lán, þeir sem fara t.d. í mjög dýrt skólagjaldanám, mun þurfa að borga meira til baka, það er alveg hárrétt. En t.d. bara venjulegur námsmaður sem lærir í Skandinavíu eða á Íslandi mun koma betur út en áður. Það er ekki hægt að halda því fram að ef 85% námsmannanna muni bera lægri greiðslubyrði sé þar með verið að segja að verið sé að leggja þessar álögur sem hv. þingmaður er að tala um. Þar við bætist auðvitað, sem kemur fram í frumvarpinu, að ríkissjóður mun verða fyrir útgjöldum vegna þessa, það verður viðbót. Ríkissjóður mun setja meira fjármagn inn í námslánakerfið. Það er reyndar veruleg aukning frá því sem áður var.

Ég held þannig að núna sé sögulegt tækifæri og ég vona að við hv. þingmaður getum (Forseti hringir.) í þinglegu meðferðinni fundið góða lausn á þessum málum, afgreitt þetta mál hérna frá, því að þá erum við búin að láta gamlan draum margra rætast; að búið verði til styrkjakerfi á Íslandi.