145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara nokkur atriði, í fyrsta lagi til þess að leiðrétta þann misskilning, það stóð aldrei til að hætta að styðja við og styrkja og lána í doktorsnámið. Þar var einungis spurningin um það að t.d. Danir veita námsaðstoð í sex ár og Svíar líka. Við lögðum þá upp með það að við mundum vera með sjö ár en á það hefur verið bent að af því að ákveðinn hluti af doktorsnemum hjá okkur sem er í námslánakerfinu þó að meginþorri þeirra sé á styrkjum gæti þetta verið óhagræði fyrir þá. Það er alls ekki verið að loka á það að fólk fái styrki eða lán í doktorsnámi. Það átti að stytta um eitt ár og ég legg þá til að það verði ekki gert.

Síðan vil ég nefna af því að hv. þingmaður sagði að námsaðstoðin væri að hámarki 15 milljónir, það er ekki rétt, hún verður 18 milljónir, þ.e. 15 milljónir í lán og síðan tæpar 3 milljónir í styrk.

Síðan er það staðreynd að ef miðað er við lántöku sem er fyrir neðan 7,5 milljónir, en 85% nemendanna eru þar undir, er klárt mál að sá hópur fer í lægri greiðslubyrði. En það er rétt sem bent hefur verið á, m.a. af forsvarsmönnum stúdenta, að þegar horft er til samspils annarra kerfa, t.d. barnabóta og meðlagsgreiðslna, saman við námslánin, koma hóparnir betur út. Ég vitnaði í framsöguræðu minni í grein formanns stúdentaráðs og ég skal aftur vitna til hennar, en í þeirri töflu sem birtist í grein formannsins sést, með leyfi virðulegs forseta, „að lánsþörf barnlausra einhleypra nemenda sem ekki búa í foreldrahúsum er hæst miðað við framfærsluviðmiðin. Samt sem áður sýna útreikningar að allir hópar munu þurfa að greiða minna til baka á endanum, miðað við að þeir fái aðstoð og lán sem nemur 100% framfærsluviðmiði.“

Þetta skiptir máli, þarna er verið að horfa til þess, og þá fellur svolítið um sjálft sig það sem hv. þingmaður sagði áðan, að hérna væri verið að búa til mikinn ójöfnuð. Ef samspil þessara þátta er með þeim hætti sem hér er lýst, eigum við þá ekki að taka það í málefnalegri umræðu og sjá hvort við getum ekki einmitt nýtt tækifærið og komið öllum í betri stöðu en áður var? Ég tel að það sé hægt, það sé tækifæri hér. (Forseti hringir.) Ég hafna því að verið sé að búa til einhvers konar afbrigðilegt kerfi sem er ólíkt því sem við þekkjum í kringum okkur. Ég tel þvert á móti að við séum að færa okkur nær því sem við þekkjum á Norðurlöndunum.