145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það eru áhugaverðar umræður sem eiga sér stað hér um þetta mál. Það er alveg klárt að hægt er að segja að mjög skiptar skoðanir séu um það. Ég held að ekki þurfi að taka dýpra í árinni en svo.

Til að grípa boltann þar sem frá var horfið varðandi þessa útreikninga þá verð ég að nefna eitt, því að hér vitnar ráðherra til stúdentanna og segir að þeir séu með 180 blaðsíðna umsögn, það er kannski ekki mjög algengt að nefndir fái 180 blaðsíðna umsögn, að mér þykir það eiginlega athugunarvert, ég verð að segja það. Af því að ráðherrann vitnar mikið til hennar og telur hana augljóslega áhugaverða og talar um útreikninga sem búið sé að fara djúpt í, þá hefði það auðvitað átt að vera unnið af ráðuneytinu og fylgja með frumvarpinu. Þá væri samandregið eitthvað af þeim upplýsingum sem þar virðast skipta svo miklu máli eins og ráðherrann nefnir. Þótt ég hafi ekki setið lengi á þingi þá er ég búin að sitja í stórum nefndum, bæði allsherjar- og menntamálanefnd og fjárlaganefnd. Við höfum ekki fengið svo viðamiklar umsagnir um málefni af þessum toga. En það verður handleggur ef við eigum að lesa þessa umsögn, ég segi nú bara ekki annað, ásamt öllu öðru sem fram undan er í vinnu hjá nefndarfólki og ætlast til að það sé tekið hér og afgreitt á örfáum dögum vil ég segja, ásamt því að fá aðrar umsagnir inn þegar frumvarpið verður sent út til umsagnar. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni virðast vera á því mjög djúpar og skiptar skoðanir og ekki bara á þessu endurgreiðsluhlutfalli eða fjármálahliðinni, þó að það virðist nú kannski einna helst vera það, þá held ég að það verði frekar mikill handleggur.

Strax í 4. gr. er talað um að nemendur sem eiga rétt á námsaðstoð megi ekki hafa lent í vanskilum við lánasjóðinn eða hann ekki þurft að afskrifa lán gagnvart viðkomandi. Þá má velta fyrir sér hvort við erum að ganga þar strax í berhögg við nám án tillits til efnahags. Margir hafa lent í ýmsu í gegnum tíðina en eru að sækja sér nám og gætu hafa orðið fyrir því að afskrifa hafi þurft eitthvað. Mér finnst þetta því ganga gegn þeirri hugmyndafræði að nám skuli vera hægt að stunda án tillits til efnahags.

Ég tek líka undir það sem hér hefur verið farið inn á og rakið töluvert, þetta með að lánin séu ekki bara veitt eins og frumvarpið vill eða ráðherrann vill halda fram að sé á hagstæðum kjörum, heldur styrkgreiðslurnar, þá vil ég meina að það sé áhyggjuefni að þeir sem taka lánin séu í raun að borga niður styrkina.

Ég fagna því af því að hér var líka verið að ræða um doktorsnámið að ráðherra beini því til nefndarinnar að laga það. Það var eitt af því sem var harðlega gagnrýnt á fyrstu metrunum. En það breytir því ekki að sú var hugsunin upphaflega.

Það voru áhugaverð orðaskipti áðan varðandi erlenda nema. Þar vantar augljóslega greiningu. Ráðherra segist ekki hafa áhyggjur af því að erlendir nemendur sæki styrk í miklum mæli hingað til lands í það nám sem hér er í boði. Mér finnst ástæða til að við fáum greiningu á því. Árið 2007 eru 717 nemendur, 2015 eru þeir orðnir 1.105. Það vantar kannski upplýsingar um það hverjir af þessum nemendum gætu t.d. fengið framfærslustyrk. Það eru tæplega 2.000 íslenskir nemendur sem njóta slíks stuðnings erlendis. Árið 2015 eru margir íslenskir stúdentar á framfæri einhvers Norðurlandanna, 1.165 í Danmörku, og alls eru þeir tæplega 2.000. Mér finnst í rauninni ástæða til að erlendir nemendur sem hér eru skráðir, það sé metið hvaða fjárhæðir þar er um að ræða.

Mikið er búið að ræða þessar tölur, þ.e. að lánin geti orðið 15 milljónir og styrkurinn 3 milljónir. Hér eru komnar fram umsagnir, þó aðeins þrjár sem við sjáum á netinu, sem benda á mismunun varðandi búsetu. Samband íslenskra sveitarfélaga virðist ekki hafa verið með og er ekki talið hér upp með þeim aðilum sem hafðir voru með í ráðum, en þetta skiptir auðvitað sveitarfélögin og hinar dreifðu byggðir gríðarlega miklu máli. Flestir eru sammála um að áhugavert sé og gott að koma upp námsstyrkjakerfi, en telja það kannski of dýru verði keypt þar sem hækkun vaxtanna og afnám tekjutengingarinnar, þ.e. það verði jafngreiðslulán, verði það sem koma skal. Talað er um mismunun eftir búsetu og efnahag þar sem landsbyggðarnámsmenn munu þurfa að taka aukin námslán. Við sem utan af landi komum þekkjum að aukakostnaðurinn felst í því að sækja sér menntun fjarri heimabyggð, hvort sem það er húsaleiga eða ferðakostnaður og margt annað kemur þar inn. Það þarf að fara betur ofan í þetta í frumvarpinu.

Eitt af því sem hefur komið fram að leysir ekki aðalvanda námsmanna — ég veit um unga konu sem var að ljúka meistaranámi í Bretlandi. Það sem henni fannst einna erfiðast var að fá alltaf eftir á greitt. Á bls. 28 er verið að tala um að það sé svo flókið og erfitt með heimturnar ef eitthvað er ofgreitt eða námsmaðurinn uppfylli ekki kröfuna um námsframvindu eða einingafjöldinn sé ekki nákvæmlega sá sami sem námsmaðurinn hafði gert ráð fyrir. En Norðurlöndin gera þetta. Ef við erum að fara fram með einhverri norrænni fyrirmynd, af hverju erum við þá alltaf að taka bara sumt en annað ekki? Það er ekki hægt að segja að þetta henti ekki. Það hlýtur eitthvað að hafa verið leyst á öðrum Norðurlöndum sem treysta sér til að fara fram með þeim hætti að greiða nemendum út mánaðarlega, sem hér er ekki gert. Þeir hljóta að hafa þurft að leysa það. Þeir hljóta að hafa staðið frammi fyrir einhverjum slíkum vanda og hér er talað um að við höfum þurft að gera.

Þetta er það sem maður heyrir að nemendur kvarti helst yfir, að þurfa að taka rándýran bankayfirdrátt til að framfleyta sér og fá svo styrkina eða lánið sitt löngu seinna og vera í eilífu basli í samskiptum við bankann og öllu sem því tilheyrir. Þeir eru jafnvel erlendis og með íslenska banka, þannig að þetta er í rauninni eitthvað sem verið er að velta yfir á stúdentana í staðinn fyrir að takast á við það. Það væri því áhugavert, af því að ég sá að ráðherrann ætlar í andsvar við mig, að vita hvers vegna íslenska lánafyrirkomulagið er svona hjá LÍN og hvers vegna þeir treysta sér ekki til að gera þetta eins og hin Norðurlöndin gera. Það hlýtur að vera markmið okkar að minnka kostnað nemenda gagnvart fjármálastofnunum frekar en að ýta undir hann.

Ég hef líka áhyggjur af því þegar við tölum um nemendur erlendis. Ráðherrann kom hér inn á að hann hafi ekki miklar áhyggjur af því að erlendir nemendur sæki hingað í eitthvert takmarkað nám. Á sama hátt viljum við mennta fólkið okkar, senda það jafnvel í dýrt nám eða það vill fara í dýrt nám sem er ekki kennt á Íslandi. Þá er hættan kannski sú þar sem skólagjöldin eru há, t.d. í Bandaríkjunum og víðar, það er ekki bara þar, að nemendur verði ofurseldir bankastofnunum ef þeir hafa þá tækifæri til þess.

Nýverið fengum við þingmenn, einhverjir alla vega, bréf þess efnis að móðir var að veðsetja húsið sitt fyrir 8 milljónir svo dóttirin gæti klárað barnageðsálfræði í Bandaríkjunum af því að fyrirkomulagið gengur ekki upp. Þetta er langt og dýrt nám. Við höfum virkilega þörf fyrir fólk með slíka menntun hér heima. En svo er greiðslufyrirkomulagið þannig að nemendur treysta sér ekki til að koma aftur heim, verði þetta að veruleika, til að geta staðið við afborganir, þ.e. í núverandi kerfi, vegna þess að launin eru svo lág. Hér er miðað við meðaltalslaun 500.000 kr. sem eru ekki raunveruleiki þeirra sem koma út á vinnumarkaðinn. Við vitum og höfum heyrt af því að atvinnuleysi meðal háskólamenntaðs fólks hefur aukist töluvert. Það er samt gengið út frá þeirri tölu, hálf milljón á mánuði, sem er viðmiðið. Auðvitað veit ég að það verður að hugsa út frá einhverju viðmiði. En er þetta raunhæft? Ég er ekki sannfærð um það og horfi þá til nýútskrifaðra kennara sem er mikil vöntun á.

Ég held að við þurfum að skoða þetta afskaplega vel í allsherjar- og menntamálanefnd, ekki vil ég að nemendur okkar þurfi að fara í einkarekna námslánasjóði sem eru farnir að gera vart við sig eða taka stór bankalán eða eitthvað slíkt sem maður hefur vitað til að fólk hafi þurft að gera. Við hljótum að vilja byggja betur í kringum þetta fyrst við erum að endurskoða kerfið sem er auðvitað löngu tímabært. Undir það tek ég.

Hér var talað um 180 síðna umsögn frá stúdentunum en það eru nú fleiri búnir að reikna og benda á ýmislegt. Eitt af því sem hefur verið bent á er að þeir sem taka námslán, hjá þeim verða skuldabréf í rauninni mörg, t.d. þegar búið er að ljúka BA-gráðu, því að það er við hverja önn. Þetta skuldabréf lokast og þá byrja að safnast á það vextir. Í staðinn fyrir fyrirkomulagið eins og það er í dag þar sem vextir verða til að afloknu náminu þá byrja þeir að tikka og tifa strax á fyrstu metrunum. Það er kannski kostnaður sem ég veit ekki hvort ráðherra hefur gert ráð fyrir í niðurstöðum sínum eða hvað, en alla vega sýnist það þeim sem reiknað hafa, ég játa að ég hef ekki gert það, að það þýði í rauninni að námsmaðurinn er farinn að safna vaxtabyrði miklu fyrr en hann gerir í dag. Það er eitt af því sem við þurfum að velta fyrir okkur.

Enn og aftur með tekjutengdar afborganir, ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að skoða, að afnema tekjutenginguna, hækka vextina. Ég held að styrkurinn fuðri upp. Fyrir utan það, eins og rætt hefur verið áður, að sumir þurfa kannski ekkert á því að halda, þetta er bara góður vasapeningur fyrir það fólk sem getur búið heima hjá mömmu og pabba, sérstaklega á stórhöfuðborgarsvæðinu þar sem aðgengi að háskólum er til staðar. En fyrir nemendur sem þurfa að sækja langt að er þetta enginn vasapeningur, þeir duga afskaplega stutt í margt.

Frú forseti. Ég held að fram undan sé mikið verk í allsherjar- og menntamálanefnd að fara í gegnum frumvarpið. Þegar maður endurskoðar svona frumvarp og gerir slíkar breytingar, eins og hér er lagt til að gerðar verði, sýnist mér eftir að hafa gluggað í þessar umsagnir að þá sé margt sem þurfi að hafa í huga. Mér sem landsbyggðarkonu finnst vegið sérstaklega að landsbyggðarfólki.