145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum. Ég tek undir það. Þetta hefur auðvitað oft verið rætt. Sumum þykir það viðkvæmt að einhvers konar ívilnun fylgi því að maður ljúki námi og skili sér í heimabyggð eða ákveði hreinlega að flytja út á land. Norður-Noregur hefur gjarnan verið tekinn sem dæmi. Þetta hefur mikið verið rætt varðandi heilbrigðisstéttirnar, lækna sérstaklega. Mér finnst ástæða til þess að skoða þetta. Ég held a.m.k. að þegar við erum að breyta kerfinu svona mikið, sem mikil þörf er á, þá sé ástæða til að endurskoða þetta og fara ofan í það og fá kannski líka að vita hvað þeim stéttum sem helst skortir úti í hinum dreifðu byggðum þykir sjálfum um að svona ívilnanir yrðu hugsanlega í boði.