145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Eins og hann sagði sjálfur þá talaði hann tæpitungulaust og það er ágætt, enda mun þetta mál hafa mikil áhrif verði það að lögum í þessum búningi. Þetta er frjálshyggjufrumvarp, ég get tekið undir það. Þó að grunnhugsunin, grundvallarhugmyndin í því sé að færa kerfið nær því sem er á Norðurlöndum, þá er útfærslan bara þannig að það gerist ekki á neinn hátt. Ég þakka fyrir þessa söguyfirferð. Ég var í háskólanum þegar breytingarnar voru gerðar árið 1991 og farið var að leggja vexti á námslán. Áður hafði verið litið svo á að vextirnir greiddust til samfélagsins í þeirri auðlegð sem felst í því að eiga vel menntað fólk. Það olli miklu fjaðrafoki og miklum mótmælum. En stúdentum vil ég kannski segja til varnar að auðvitað eru þeir að horfa á kjör sín í náminu. Það er það sem þeim stendur næst, þær aðstæður sem þeir eru að fást við í dag. Það er þá annarra sem reynslu hafa af endurgreiðslu í þessum kerfum að benda á veikleikana þar. Ég held að um leið og stúdentaráð kynnir sér betur afleiðingarnar muni það skipta um skoðun, ég vona alla vega að þau hafi vit á því.

Þá vil ég líka koma inn á vextina sem er verið að hækka gríðarlega, um allt að 2 prósentustig, ef ekki meira, auk þess (Forseti hringir.) sem vextir og verðtrygging reiknast frá því að lánið er veitt, í stað þess að byrja að leggjast á eftir (Forseti hringir.) að skuldabréfinu er lokað í lok náms. Hvaða afleiðingar telur þingmaðurinn að þetta muni hafa?