145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[22:20]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð. Nefndin hefur fjallað um málið og þingið þekkir það ljómandi vel. Við áttum hér mikla og góða umræðu um þjóðaröryggisstefnu síðastliðið vor og náðum þeim árangri sem ég tel að hafi verið ansi markverður og mikilsverður fyrir þingið að ná ágætri samstöðu um stefnuna. Það var sannarlega ekki sjálfgefið og kallaði á mikla vinnu margra aðila. Sú vinna var leidd á sínum tíma af hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sem fór fyrir hópi þingmanna sem tók það að sér að leita leiða í því erfiða verkefni að ná samstöðu um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

Einhver hefði illa trúað því fyrir nokkrum árum, hvað þá áratugum, að það tækist að ná um það breiðri sátt með því einungis að fulltrúar eins þingflokks ákvæðu að sitja hjá við afgreiðslu þess máls og þá á grundvelli þess að afstaða þeirra til Atlantshafsbandalagsins, NATO, er þekkt og kunn og lá fyrir frá byrjun. Þau voru auðvitað ekkert annað en samkvæm sjálfum sér í því. Að öðru leyti náðist mjög góð sátt um það mikilvæga plagg og fyrir það ber að þakka. Ég þakka öllum sem komu að því. Auðvitað komu líka að þeirri vinnu á sínum tíma hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherrar, Össur Skarphéðinsson og Gunnar Bragi Sveinsson, og svo að endingu nýr hæstv. utanríkisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir.

Í framhaldi af þeirri vinnu var lagt fram frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð, þ.e. skipan þess ráðs sem mundi fylgja fram þessari stefnu og bera ábyrgð á að hún yrði unnin í samræmi við þá breiðu samstöðu sem náðist í málinu. Hæstv. utanríkisráðherra mælti svo fyrir frumvarpinu sem kom til meðferðar í hv. utanríkismálanefnd sem hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Jörund Valtýsson og Axel Nikulásson frá utanríkisráðuneytinu. Þó að ekki svo mikill tími hv. nefndar hafi farið í að ræða málið við embættismenn utanríkisráðuneytisins fór þeim mun meiri tími nefndarinnar í að ræða þann sameiginlega vilja allra þingmanna sem þar eiga sæti að tryggja að um ráðið og skipan þess næðist viðlíka samstaða og um stefnuna sem ég nefndi áðan.

Eins og kemur fram er með frumvarpinu lagt til að sett verði á stofn þjóðaröryggisráð sem hafi það verkefni að hafa eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland verði framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og verði sá samráðsvettvangur sem nauðsynlegur er um þjóðaröryggismál. Auk þessa er ráðinu falið að meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum, fjalla um önnur málefni er varða þjóðaröryggi, stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar og beita sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál og eflingu fræðslu og upplýsingagjöf um þau mál í samvinnu við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla, svo eitthvað sé hér nefnt.

Eins og ég sagði áðan fór mestur tími hjá nefndinni í að ræða skipanina sem ég vil aðeins útskýra. Ástæðan fyrir því að hv. utanríkismálanefnd, í góðu samráði við hæstv. utanríkisráðherra, lagði ríka áherslu á að þetta þjóðaröryggisráð mundi endurspegla vilja þingsins til að vinna að þessum málum í sem bestri sátt var sú að mestur tími þingnefndarinnar fór þar af leiðandi í að ræða hvort ekki væri eðlilegt að auka og efla aðkomu Alþingis að þjóðaröryggisráðinu. Langmest umræða var um það, enda er í 3. gr. frumvarpsins kveðið á um að í ráðinu skyldu eiga sæti forsætisráðherra, utanríkisráðherra, innanríkisráðherra, ráðuneytisstjórar viðkomandi ráðuneyta, ríkislögreglustjóri og forstjóri Landhelgisgæslunnar. Við þetta staldraði hv. utanríkismálanefnd og taldi að þarna þyrfti að bæta úr til að tryggja að þingið kæmi að með öflugri hætti, eins og ég sagði áðan, en einnig taldi nefndin hníga rök að því að fulltrúar almannavarna í landinu, fulltrúar þeirra sjálfstæðu aðila er kæmu að viðbragðsáætlunum í landinu, öryggisáætlunum o.fl., ættu einnig aðkomu. Þess vegna lagði nefndin til, eftir talsverða umræðu varð það niðurstaðan, að eðlilegt væri að fulltrúi Landsbjargar ætti sæti í ráðinu og því er lögð til breyting í samræmi við það.

Varðandi aðkomu Alþingis telur nefndin afar mikilvægt, og það er þungamiðjan í breytingartillögu okkar, að það sé í samræmi við áherslur þingsins um þjóðaröryggisstefnu og þá sátt sem þar náðist að þingið eigi sjálft fulltrúa í þjóðaröryggisráði, það séu sem sagt ekki einungis fulltrúar ríkisstjórnar og þar með talið fulltrúar meiri hlutans á þingi sem eigi sæti í þjóðaröryggisráði heldur hafi þingið öflugri aðkomu og þar með talið að sjálfsögðu fulltrúar þeirra sem ekki sitja í ríkisstjórn.

Nefndin telur mjög mikilvægt, og við teljum það stórt atriði, að jafnræðis sé gætt í slíkri skipan. Því leggjum við til breytingu þess efnis að tveir þingmenn eigi sæti í ráðinu og að annar þeirra komi úr röðum stjórnarflokka en hinn ekki. Með þeirri skipan er tryggt að bæði þingflokkar meiri hluta á þingi og þingflokkar minni hlutans á þingi eigi sæti í ráðinu. Áréttar nefndin að þetta tryggir beina og óhindraða aðkomu Alþingis að þeim mikilvægu málum sem ráðið mun fjalla um.

Ég vil geta þess að nokkur umræða varð um það á fundum nefndarinnar hvort setja ætti það fast inn í þessar breytingartillögur að þessir aðilar frá þinginu, þ.e. þingmenn, kæmu úr utanríkismálanefnd en niðurstaðan varð síðan sú, eftir talsverðar umræður, að það væri ekki skynsamlegt enda gætu flokkarnir viljað skipa einhvern sérfræðing eða aðila sem hugsanlega væri í öðrum nefndum en utanríkismálanefnd. Við vildum þess vegna ekki binda hendur þingflokkanna í því.

Nokkuð var einnig rætt um trúnað á fundum þjóðaröryggisráðs. Það er kveðið á um það í 7. gr. frumvarpsins að trúnaður ríki um það sem gerist á fundum þjóðaröryggisráðs. Nefndin bendir á að verkefni ráðsins eru ekki öll þess eðlis að um þau þurfi eða eigi að ríkja fullur trúnaður. Gert er ráð fyrir að ráðið fundi reglulega og að ekki þurfi sérstök vá eða neyðarástand að vera til staðar til að slíkir fundir fari fram. Þess vegna telur nefndin að eðli máls samkvæmt geti fundargerðir þjóðaröryggisráðs innihaldið upplýsingar sem gagnlegt geti verið að séu aðgengilegar og hægt að miðla áfram. Þess vegna leggur hv. utanríkismálanefnd til þá breytingu á ákvæðinu að trúnaður ríki einungis ef þörf er talin vera á því. Ráðið geti þannig ákveðið að trúnaður ríki um einstaka fundi eða einstök mál á dagskrá fundarins, enda séu skýr rök fyrir því. Með þessu er tryggt að afstaða verði tekin til þess hverju sinni hvort um mál sem rædd eru skuli gilda trúnaður eða ekki en meginreglan verði sú að trúnaður gildi ekki.

Í þriðja lagi ræddi nefndin nokkuð um viðurlög sem eru sett fram í frumvarpinu. Í 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um að hver sá, eins og það er orðað, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir þjóðaröryggisráði rangar upplýsingar skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Í 2. mgr. er svo kveðið á um vægari refsingu fyrir brot gegn öðrum ákvæðum laganna og reglugerðum sem settar kunna að verða með stoð í lögunum, þ.e. sektir eða allt að tveggja ára fangelsi. Ástæðan fyrir því að hv. utanríkismálanefnd staldraði við þetta er sá vilji nefndarmanna, og ég held að það sé vilji löggjafans í heild sinni, að refsiheimildir laga séu skýrar og afdráttarlausar og uppfylli ákvæði stjórnarskrár um skýrleika refsiákvæða. Okkur þótti í þeirri löngu umræðu sem við tókum um þetta að hér mætti bæta úr. Þess vegna leggjum við til ákveðna breytingu á því og tökum undir að það sé mikilvægt að ráðið hafi yfir að búa réttum upplýsingum og að ekki verði horft fram hjá því að verkefni ráðsins lúta að grunnþáttum öryggis ríkis og þjóðar. Rangar upplýsingar geta sannarlega valdið skaða og ógnað öryggi. Ákvæðið verður þó að vera skýrt. Það þarf að vera skýrar að okkar mati hvað átt er við nákvæmlega þegar talað er um að einhver gefi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi þjóðaröryggisráði rangar upplýsingar. Þess vegna bendir nefndin í þessu samhengi á að í 142. gr. hegningarlaga um rangan framburð er kveðið á um allt að fjögurra ára fangelsi ef skýrt er rangt frá fyrir rétti en varði rangur framburður ekki málefnið sem verið er að kanna er vægari refsing gerð, þ.e. sektir eða allt að eins árs fangelsi. Leggur nefndin því til breytingu í þá veru að til að viðurlög verði við veitingu rangra upplýsinga gagnvart þjóðaröryggisráði þurfi upplýsingar að vera til þess fallnar að ógna þjóðaröryggi eða vekja ótta um að öryggi sé ógnað. Er það sambærilegt viðmið, og til þess var litið í þessari vinnu nefndarinnar, og viðhaft er í 120. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940, sem vísað er til í athugasemdum við ákvæðið. Með þessu er tryggt að rangar upplýsingar sem ekki varða þjóðaröryggi baki mönnum ekki refsiábyrgð samkvæmt ákvæðinu.

Með vísan til 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar er lagt til að vísan til reglugerðar verði felld brott úr viðurlagaákvæði frumvarpsins, auk þess sem lagt er til að 2. mgr. ákvæðisins verði afmörkuð og nái einungis til þess þegar trúnaður er rofinn um mál sem varða þjóðaröryggi samkvæmt 7. gr. Með þeim breytingum sem nefndin lagði til á trúnaðarákvæði frumvarpsins þarf að ákveða hverju sinni hvort trúnaður skuli gilda um það sem fram fer á fundi eða um einstök dagskrármál. Eðli máls samkvæmt verða þá þau mál sem trúnaður ríkir um þess eðlis að það geti ógnað þjóðaröryggi verði þau gerð opinber. Mikilvægt er að hæfileg viðurlög séu sett við slíkum brotum og telur nefndin sektir og allt að tveggja ára fangelsi uppfylla þá kröfu fyllilega.

Þegar þetta allt er tekið saman leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Í stað 2. málsliðar 1. mgr. 3. gr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Jafnframt skulu ríkislögreglustjóri, forstjóri Landhelgisgæslunnar og fulltrúi Landsbjargar eiga sæti í ráðinu. Þá eiga sæti í ráðinu tveir þingmenn og skal annar þingmaðurinn vera úr þingflokki sem skipar meiri hluta á þingi en hinn úr þingflokki minni hluta.

2. Í stað orðanna „trúnaður ríkir um það sem gerist á fundum þess“ í 7. gr. komi: getur ráðið ákveðið að trúnaður ríki um fundi ráðsins eða einstök mál á dagskrá fundar.

3. Við 11. gr.

a. Á eftir orðunum „rangar upplýsingar“ í 1. mgr. komi: sem eru til þess fallnar að ógna þjóðaröryggi eða vekja ótta um að þjóðaröryggi sé ógnað.

b. 2. mgr. orðist svo:

Hver sá sem rýfur trúnað samkvæmt 7. gr. og tjáir sig um trúnaðarupplýsingar sem ógna þjóðaröryggi skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, enda liggi ekki þyngri refsing við þeim samkvæmt öðrum lögum.

Undir þetta rituðu 1. júní 2016 sú sem hér stendur, sem er formaður og framsögumaður þessarar breytingartillögu, Karl Garðarsson, Vilhjálmur Bjarnason, Frosti Sigurjónsson, Elín Hirst, Óttarr Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Össur Skarphéðinsson sem skipa hv. utanríkismálanefnd.