145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[22:36]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi tollstjóra þá fór eins og ég sagði áðan mikill tími nefndarinnar í að ræða það hvort ástæða væri til að fjölga í ráðinu. Niðurstaðan var sú að við vildum gera það en varlega þó. Við bætum inn tveimur þingmönnum sem fjölgar í þessum hópi, við bætum einnig við einum aðila frá Landsbjörg sem við teljum mikilvægt vegna þessa almannahlutverks. Að auki kemur fram í 3. gr. að embættismönnum og öðrum starfsmönnum hins opinbera sé skylt að mæta á fundi sé þess óskað. Það var talið taka utan um mjög stóran annan hóp. Margir aðrir embættismenn, svo ég haldi því til haga, voru nefndir svo sem landlæknir, sóttvarnalæknir, einstakir lögreglustjórar, ekki bara ríkislögreglustjóri, og ýmsir aðrir embættismenn en niðurstaðan, og við getum rætt um það og deilt um það, varð þessi, líka vegna þess að það sitja margir ráðherrar í þessum hópi og ráðuneytisstjórar sem allt eru með einhverjum hætti yfirmenn þessara aðila.

Ég get tekið undir ákveðin rök í þessu sambandi en ég get líka tekið undir rök sem ég veit að aðrir munu koma með hér á eftir í umræðunni varðandi aðra embættismenn sem þarna ættu heima, eins og landlæknir og fleiri sem menn töldu mikilvægt að kæmu inn. Það var niðurstaða nefndarinnar eftir langa umræðu að þetta væri farsælast svona. Ég vara annars við því, ekki það að ég skil alveg rökin, veit alveg hvað hv. þingmaður á við og get að mörgu leyti tekið undir það, að þetta gæti átt við um skilgreiningu gagnvart mörgum öðrum embættismönnum í kerfinu.