145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur kynnt á undanförnum dögum ýmsar aðgerðir og mér sýnist að þær aðgerðir séu allar á þann veg og séu þesslegar að þær auki stéttaskiptingu í landinu og aðgreiningu og mismuni fólki, því miður. Bæði mismuna þær fólki eftir búsetu og eftir efnahag og aðstæðum fólks í lífinu. Það er auðvitað mjög slæmt þegar aðgerðir í húsnæðismálum og aðgerðir sem snúa að námsfólki eins og frumvarpið um lánasjóðinn er sem hefur verið hér til umræðu, ýta undir það að kippa fótunum undan ákveðnum hópum í þjóðfélaginu sem hafa þá ekki möguleika á að vera þátttakendur í samfélaginu. Við vitum að með þessum boðuðu aðgerðum varðandi fyrstu kaup eru það auðvitað sérstaklega þeir efnameiri sem hafa möguleika á því að leggja til hliðar fé í séreignarsparnað til að safna sér fyrir fyrstu íbúð. Engar aðgerðir eru til þess að mæta öðrum hópum sem hafa ekki efni á að gera slíkt.

Með LÍN-frumvarpinu er verið að útiloka ákveðna hópa sem þurfa að taka lán hjá LÍN með mjög háum vöxtum til þess að geta framfleytt sér, búa ekki á höfuðborgarsvæðinu, geta ekki verið í heimahúsi og stundað háskólanám þaðan. Það er verið að útiloka t.d. fólk úti á landi vegna þess að það rís ekki undir greiðslubyrði lána með þessum háu vöxtum. Það er líka verið að útiloka konur, því að margar hverjar mennta sig til starfa sem eru ekki vel launuð í (Forseti hringir.) framtíðinni og þær rísa þá ekki undir þungri (Forseti hringir.) endurgreiðslubyrði í framtíðinni.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna