145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í fyrradag var sagt frá því í fjölmiðlum að bandarísk yfirvöld hefðu létt leynd af skjölum frá 6. áratugnum varðandi möguleikann á að koma fyrir kjarnorkuvopnum á Keflavíkurflugvelli. Það áhugaverðasta við þessi gögn er að í þeim kemur skýrt fram að embættismenn og stjórnmálamenn vestanhafs töldu vel koma til greina að geyma hér kjarnorkuvopn án þess að láta íslenska ráðamenn vita. Þetta er virðingarleysi við fullveldi smáríkis og það ríkis sem er kallað vinaþjóð. Það kemur reyndar ekkert á óvart. Það er nefnilega í takti við hegðun stórveldanna á hernaðarsviðinu að fara alltaf eins langt og þau mögulega mega með vígbúnað sinn og jafnvel lengra. Þótt þessar fréttir fjalli um sagnfræðilegt efni eru þau ágætisáminning varðandi málefni dagsins í dag. Kjarnorkuvopn hurfu ekki með kalda stríðinu. Þau eru lifandi ógn og einhver mesta hætta sem steðjar að mannkyni. Kjarnorkuveldin eru þessi missirin að verja ógnarupphæðum í einmitt það að endurnýja kjarnorkuvopnabúr sín.

Í nóvember á síðasta ári lagði ég nokkrar spurningar fyrir þáverandi hæstv. utanríkisráðherra um stefnu Íslands varðandi kjarnorkuvopn. Þær spurningar voru áréttaðar eftir að nýr ráðherra tók við embætti. Þar spurði ég m.a. um hvaða rök lægju fyrir því að Ísland greiddi atkvæði gegn ályktunartillögu um bann við kjarnorkuvopnum og útbreiðslu þeirra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2015 og hvort ráðherra teldi að framganga og afstaða NATO sem m.a. birtist í þróun gagneldflaugakerfa sé til þess fallin að stuðla að kjarnorkuafvopnun (Forseti hringir.) í heiminum. Skemmst er frá því að segja að þeim spurningum hefur enn ekki verið svarað.


Efnisorð er vísa í ræðuna