145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég vék að áhrifum frumvarpanna samanlagt var ég ekki síst að ræða um fyrra frumvarpið og möguleg áhrif þess á fasteignamarkaðinn. Ef við skoðum þetta frumvarp einangrað þá er alveg ljóst að ekki er hægt að leiða fram nein þensluhvetjandi áhrif af frumvarpinu vegna þess að hér er verið að þrengja að notkun þess lánakosts sem hefur lægstu endurgreiðslubyrði. Það mætti því frekar segja að þetta frumvarp væri svona aðeins til að tempra einhver áhrif af hinu frumvarpinu að því leyti sem þau mundu leiða til þeirrar niðurstöðu sem þingmaðurinn er að nefna, þ.e. hérna værum við þá með frumvarp sem mundi tempra áhrifin til hækkunar vegna þess að verið er að takmarka notkun þess lánakosts sem er aðgengilegastur í dag hvað greiðslubyrðina varðar.