145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er afskaplega mikilvægt þegar við horfum á áhrif fyrir heimilin af verðbólguskotum í gegnum tíðina að skoða löng tímabil. Það er tiltölulega auðvelt að leiða það fram að þrátt fyrir að margir hafi séð höfuðstólshækkanir vegna verðbólgu á verðtryggðum lánum þá er það engu að síður svo að húsnæðisverðið hefur farið fram úr vísitölu neysluverðs yfir langan tíma og það nokkuð hressilega. Þeir sem hafa getað staðið í skilum, og þeir hafa kannski helst getað gert það sem voru með jafngreiðslulánin, hafa komist ágætlega frá því þegar upp er staðið.

Það sem ég vil koma að hér að öðru leyti er að ég hef mjög miklar efasemdir um það sem haldið hefur verið fram af Vilhjálmi Birgissyni, var í minni hluta í nefndarstarfinu, að með því einu að banna alfarið verðtryggð lán muni vextir á óverðtryggðum lánum bara lækka, vegna þess að bankarnir verði þvingaðir til að lækka vextina svo að fólk geti staðið í skilum. Ég held að hlutirnir gerist ekki alveg svona í mannheimum. (Forseti hringir.) Það gerist ekki bara fyrir slíkt pennastrik að menn gjörbreyti vaxtastefnunni og láni út á einhverjum allt öðrum kjörum. Það gerist ekki þannig.