145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[16:26]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður seint sagt um þann sem stendur hér núna að hann hafi mikið vit á fjármálum og fjármálagjörningum. Ég hef lesið mér aðeins til um verðtryggingu og annað hjá hagfræðingum og engir tveir virðast segja það sama sem er eingöngu til þess fallið að rugla mann í ríminu.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra eins. Flokkurinn hans gefur sig út fyrir að vera frjálslyndur og styðja og styrkja frelsi einstaklings og að ríkið eigi að hafa sem minnst afskipti af því sem fólkið í landinu er að gera. Skýtur ekki dálítið skökku við að hann skuli þá banna lán eins og t.d. verðtryggð lán í þessu fjármálaumhverfi sem við búum í? Ég geri mér þó fulla grein fyrir því að það er hvorki mjög heilbrigt né gott og hefur ekki verið. Er ekki svolítið skrýtið að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera að banna fólki að taka vissa tegund af lánum?