145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

aðgerðaáætlun um orkuskipti.

802. mál
[16:21]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti, á þskj. 1405, mál nr. 802.

Ísland hefur á undanförnum áratugum náð markverðum árangri í orkuskiptum með notkun endurnýjanlegra orkugjafa fyrir hita- og rafveitur landsins sem nýta nær eingöngu endurnýjanlega orku sem fólgin er í orku jarðvarmans, fallvatna og vindinum. Mikilvæg skref hafa einnig verið stigin undanfarin ár í samgöngum á landi þó að enn sé langur vegur í að ná fram fullum orkuskiptum þar. Aðgerðir stjórnvalda hafa leikið stórt hlutverk í þeim orkuskiptum samgangna á landi sem hafa átt sér stað undanfarin ár. Góðan árangur má sjá á því að endurnýjanlegt eldsneyti hefur vaxið úr 0,2% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í um 6% á fimm árum. Bæði er hér um að ræða lífeldsneyti sem nú er notað í meiri mæli en áður, auk þess sem verulegur vöxtur hefur verið í fjölgun rafbíla.

Á öðrum sviðum orkuskipta erum við á byrjunarreit enn sem komið er, svo sem hvað varðar haftengda og flugtengda starfsemi, hvort sem hún snýr að samgöngum í ferðaþjónustu eða afurðavinnslu. Því er mikilvægt að útvíkka stefnumótun og aðgerðir fyrir orkuskipti þannig að þau taki jafnt til allra sviða sem enn eru meira eða minna háð jarðefnaeldsneyti.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 22. maí 2013 er lögð áhersla á að nýta vistvæna orkugjafa enn frekar og að hvatt verði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis. Að sama skapi er fjallað um nauðsyn þess að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda.

Margvísleg knýjandi rök eru fyrir orkuskiptum. Mest hefur borið á ástæðum tengdum umhverfismálum, þ.e. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem og annarri mengun sem tengist jarðefnaeldsneyti. Fleiri rök eru ekki síður mikilvæg, eins og orkuöryggi, gjaldeyrissparnaður, nýsköpun og þróun. Innflutt jarðefnaeldsneyti er háð sveiflum í framboði og olíuverði. Aukið orkuöryggi eitt og sér er því nægjanlegt tilefni til að róa að því öllum árum að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Ávinningur er sömuleiðis fólginn í því að byggja upp nýja atvinnugrein, innlendan umhverfisvænan eldsneytisiðnað, sem hefur í för með sér fjölgun starfa með tilheyrandi margfeldisáhrifum.

Í nýlegri sóknaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem kynnt var í lok nóvember á síðasta ári eru tvö verkefni skilgreind sem lúta beint að orkuskiptum, annars vegar um endurnýjaða aðgerðaáætlun til næstu ára vegna orkuskipta jafnt á landi, lofti sem legi og hins vegar um eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu. Í sóknaráætluninni kemur nánar tiltekið eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Orkuskipti í samgöngum: Aðgerðaáætlun til næstu ára vegna orkuskipta, jafnt á landi sem á hafi, verður lögð fram á Alþingi sem tillaga til þingsályktunar á vorþingi 2016. Áætlunin er unnin á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Grænu orkunnar, sem er samstarfsvettvangur um orkuskipti, sem miðar að því að auka hlut visthæfra innlendra orkugjafa á kostnað innflutts kolefnaeldsneytis. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að árið 2020 verði hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum orðið 10% og mun starf á grunni væntanlegrar þingsályktunar miða að því að ná því marki.“

Orkuskipti eru þannig eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar, enda fela þau í sér aukið orkuöryggi, gjaldeyrissparnað, nýsköpun og sprotauppbyggingu nýrra iðngreina til viðbótar við umhverfislegan ábata.

Í framangreindri sóknaráætlun er iðnaðar- og viðskiptaráðherra falið að vinna tillögu til þingsályktunar þar sem fram kemur markmiðasetning og aðgerðaáætlun um orkuskipti. Það er sú tillaga sem ég mæli hér fyrir.

Þessi tillaga til þingsályktunar var unnin í samstarfi við Grænu orkuna, sem er samstarfsvettvangur um orkuskipti, auk samráðs við fjölda hagsmunaaðila. Græna orkan er samstarfsvettvangur hins opinbera ásamt aðilum úr atvinnulífinu sem tengjast orkuskiptum. Þar eiga sæti fulltrúar fjögurra ráðuneyta, þ.e. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innanríkisráðuneytis. Í þingsályktunartillögunni eru sett fram markmið um orkuskipti fram til ársins 2030. Stefnt er að 30% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi og 10% hlutdeild í haftengdri starfsemi. Markmiðasetning tekur mið af eldsneytisspá orkuspárnefndar Orkustofnunar og möguleikum stjórnvalda til að beita hagrænum hvötum til orkuskipta.

Í þingsályktunartillögunni er lögð aukin áhersla á uppbyggingu innviða, enda hefur það sýnt sig að innviðir verða að vera til staðar til að mæta fjölgun tækja sem nýta nýja orkugjafa. Í þingsályktunartillögunni eru lagðar til aðgerðir á nýjum sviðum orkuskipta sem hingað til hafa ekki verið í forgrunni, þ.e. á hafi og í flugi, auk þess sem áfram eru lagðar til aðgerðir fyrir samgöngur á landi. Segja má að orkuskipti séu vel á veg komin í samgöngum á landi þó að enn sé jarðefnaeldsneyti ríkjandi. Hlutirnir gerast hratt á þeim vettvangi. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að við ættum jafnvel að líta til þess að setja okkur hærri markmið en hér koma fram og líta til dæmis til Noregs í þeim efnum.

Önnur svið, haftengd og flugtengd starfsemi, eru hins vegar sem áður segir mun skemur á veg komin hvað orkuskipti varðar. Aðgerðir í þingsályktunartillögunni horfa því nú til nýrra sviða og mun reynsla af þróun orkuskipta fyrir samgöngur á landi nýtast þar.

Í þingsályktunartillögunni er því lögð fram markviss aðgerðaáætlun um orkuskipti til næstu ára. Gert er ráð fyrir að áætlunin verði endurskoðuð á fimm ára fresti og uppfærð eftir því sem ástæða er til á hverjum tíma. Í tillögunni er lögð fram aðgerðaáætlun í 25 liðum sem eiga að stuðla að því að framangreind markmið náist. Aðgerðirnar flokkast í þrjá meginflokka, hagrænir hvatar, innviðir og stefnumótun, reglugerðir og rannsóknir. Aðgerðirnar skipast síðan á samgöngur á landi, hafi og lofti.

Lögð er fram tillaga um endurskoðun gjaldtöku í samgöngum til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja. Áfram er gert ráð fyrir að hreinorkubílar, bílar sem losa engan koltvísýring, njóti skattafsláttar og hann skuli ekki afnema fyrr en ákveðinn fjöldi bíla er kominn í umferð og þar er miðað við 5.000–12.000 bíla. Skoðaðir verði möguleikar á að hópferðabílar njóti sömu ívilnana. Þá er lagt til að skerpa á ávinningi fyrir orkunýtnar bifreiðar. Lagt er til að 50% afsláttur verði af hlunnindasköttum vegna bifreiðahlunninda fyrir vistvænar bifreiðar, en með því á að hvetja fyrirtæki til að fjárfesta í vistvænum bílum. Þá er lagt til að hreinorkuleigubílar skuli njóta forgangs við flugvelli og aðra mikilvæga samgönguinnviði.

Í tillögunni kemur fram að stjórnvöld hafi hleypt af stokkunum þriggja ára átaki um uppbyggingu innviða fyrir rafbíla með 67 millj. kr. árlegu framlagi sem úthlutað verður af Orkusjóði. Þeir styrkir hafa þegar verið auglýstir af hálfu ráðuneytisins og er í samræmi við áðurnefnda sóknaráætlun í loftslagsmálum og kynnt var í lok síðasta árs.

Þá er lagt til að skoðað verði hvernig hægt sé að auka notkun skipa á raforku í höfnum, bjóða upp á raftengla fyrir langtímastæði við flugvelli og landtengingu flugvéla.

Í aðgerðaáætlun þingsályktunartillögunnar eru ýmsir fleiri þættir tilgreindir og ekki er unnt að telja þá upp með tæmandi hætti hér, en allir miða þeir að sama markmiði um orkuskipti á landi, lofti og legi.

Virðulegur forseti. Það er von mín að tillögur þær sem finna má í tillögu þessari til þingsályktunar muni stuðla að áframhaldandi öflugu starfi á sviði orkuskipta og falli þannig saman við þau metnaðarfullu markmið sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér á undanförnum árum á þessu sviði. Hér þarf að verða ákveðin breyting á hugarfari. Það má kannski líkja þeirri breytingu við það sem gerðist á sínum tíma þegar tekin var sú ákvörðun, stórhuga ákvörðun, um að hitaveituvæða landið. Við getum öll hugsað okkur hvernig land við byggjum nú ef ekki hefði verið fólk á þeim tíma sem var tilbúið að taka þær ákvarðanir. Hér er því verið að setja metnaðarfull markmið, ég tel að það séu markmið sem við eigum að setja okkur og vinna að þannig að börnin okkar og barnabörn geti litið til baka og sagt að þarna hefðu verið aðilar sem voru tilbúnir til að setja markmið til lengri tíma og vonandi verður það með sama hætti árangursríkt og hitaveituvæðingin var á sínum tíma.

Að lokinni umræðu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.