145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[17:19]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stjórnvöld fengu fjögur ár til að ljúka samningum við Evrópusambandið. Þau töldu að það mundi taka átján mánuði en höfðu heilt kjörtímabil til að gera þetta og þessi stjórnvöld gáfust upp. Evrópusambandið gafst upp. Viðræðurnar strönduðu. Það er niðurstaða Hagfræðistofnunar sem tók þetta út. Ég trúi þeirri niðurstöðu. Fyrir utanríkismálanefnd þar sem ég sit kom líka fjöldi gesta sem lýsti þessu ferli og hvers vegna ekki hefði verið hægt að klára þetta. Það er alveg sama hvort við höldum bindandi eða ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, það er ekki hægt að klára þetta. Ekki með þeim skilyrðum sem við setjum. Þessi 30% sem þó vilja ganga í Evrópusambandið setja skilyrði fyrir þeim áhuga. Hin 70% vilja bara ekki ganga inn. En þau 30% sem vilja ganga inn gera það með skilyrðum um að við fáum að halda í ákveðin mikilvæg atriði sem eru auðlindir, sjávarútvegur, að verja landbúnað okkar, ekki gegna herskyldu í Evrópusambandinu og hitt og þetta, alls konar skilyrði. Fullt af þessu er hugsanlega ekki hægt að ná. Ég set t.d. það skilyrði að við þurfum ekki að taka upp evruna. Það skilyrði er ekki í boði. Núna er bara ekki í boði að ganga í Evrópusambandið en ekki í myntbandalagið. Myntbandalagið er án undantekninga. Danir eru með undantekningu, Bretar voru það. Svíar hafa enga slíka undanþágu og ekki Pólverjar, þeir draga bara lappirnar, þeir forðast eins og þeir mögulega geta að ganga inn í það efnahagsvandamál sem evran er.

Þannig að ég segi: Áður en haldið er áfram með einhverjar aðildarumsókn, segjum sem svo að það væri meiningin, að menn vildu alveg endilega skoða Evrópusambandið upp á nýtt, þá er þetta allt annað en hér blasti við 2009. Ég mundi segja: Þetta er ótímabært. Ég held að við ættum ekki að fara að leggja þessa spurningu fyrir þjóðina og síst af öllu að skammta henni nauman tíma til að ræða spurninguna.