145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[17:23]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Óttari Proppé fyrir að koma með þessa spurningu. En ég vil ekki þakka fyrir það að menn geri mér upp skoðanir eða orð. Ég hef ekki sagt að Evrópusambandið sé óhuggulegt fyrirbæri eða eitthvað slíkt. Ég hef engin slík orð notað. Ég sagði að talað hafi verið um að myntbandalagið sé efnahagsvandamál. Ég hef talað um að forsendur hafa breyst. Ég hef margoft sagt að það þjóni ekki hagsmunum Íslands að vera aðili að bandalaginu. Það má vel vera að það þjóni hagsmunum einhverra annarra þjóða sem standa nær þeim meginstefnum sem þar ríkja. Það getur vel verið. Ég hef aldrei sagt að það sé slæmt í þeim skilningi. Ég hef bara bent á og fært rök fyrir því og skoðað mjög vandlega út frá mörgum hliðum yfir margra ára tímabil og mín niðurstaða hefur verið óbreytt, óhögguð, og ég sé að obbi landsmanna, 70% þjóðarinnar eða af þeim sem taka afstöðu, eru á sömu línu og finnst hagsmunum þeirra ekki þjónað með því að stjórnsýslan fari í mjög langt og þungt ferli við það að leiða til lykta eitthvert bjölluat sem mun síðan leiða bara til þess að þessu verður hafnað, alveg eins og gerðist í Noregi tvisvar. Í Noregi var þó alla vega hægt að semja um eitthvað. Það er ekki lengur hægt eftir að Austur-Evrópuríkin gengu inn. Um leið og sá innlimunar- og stækkunarprósess hófst hjá Evrópusambandinu breyttist nálgun og stækkunarferlið þannig að menn gátu ekki samið sig frá meginreglum Evrópusambandsins.

Menn geta ekki samið sig frá því að verið er að ræða um að koma á her. Ég geri mér fulla grein fyrir að ekki er her þar í dag. Það eru margir herir í löndunum, í nokkrum ríkjum eru herir. En núna er sífellt talað um nánara samstarf þessara herja og það sé til að auka styrk Evrópusambandsins. Ég er undrandi á því ef hv. þingmaður kannast ekki við þá umræðu. Það eru margir forvígismenn (Forseti hringir.) þessa sambands sem tala fyrir nauðsyn þess að koma á hernaðarbandalagi.