145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

hækkun ellilífeyris.

[10:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Verkstjóra ríkisstjórnarinnar til upplýsingar þá liggur frumvarpið frammi á vef félagsmálaráðuneytisins og þar geta allir landsmenn, og raunar heimsbyggðin öll, lesið hvað í því er. Það liggur sömuleiðis fyrir að það hefur verið unnið í víðtækri samvinnu hvað ellilífeyri varðar og þarf ekki að óttast stjórnarandstöðuna í þeim málum.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra að því hér og nú, vegna þess að ég hafði sannarlega efasemdir um vilja samstarfsflokksins í málinu: Er það loforð forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, til aldraðra á Íslandi að þetta frumvarp komi inn í þingið áður en það fer heim og að það verði af hálfu stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar klárað fyrir kosningar með þeim kjarabótum fyrir aldraða, með einföldun á kerfinu og minni skerðingum sem þar er að finna?