145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

fjármögnun samgöngukerfisins.

751. mál
[15:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek að hluta til upp þráðinn þar sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sleppti honum í samtali hér við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, en fyrirspurnin lýtur að fjármögnun samgöngukerfisins til framtíðar.

Það liggur auðvitað fyrir að íslenska samgöngukerfið er verulega vanrækt nú um stundir og liggur fyrir líka í samþykktri ríkisfjármálaáætlun til fimm ára að hún er í raun vanræksluáætlun. Hún er áætlun um að halda áfram að vanrækja þessa mikilvægu innviði, bæði að því er varðar nýframkvæmdir og viðhald. Hér er um að ræða slíka lykilinnviði samfélagsins að það er mjög mikill ábyrgðarhluti að láta hjá líða að horfa til þess með ábyrgum hætti. Ljóst er að núverandi samgönguráðherra ætlar ekki að berjast fyrir því að þeirri stöðu verði breytt, enda eru svo sem kunnugleg stefnumið Sjálfstæðisflokksins skammt undan, sem eru vaxandi aðkoma einkafjármagnsins í öllum þáttum samfélagsins. Það er þekkt aðferð að svelta samfélagið þar til almenningur kallar eftir einkafjármagni og einkaframtaki inn í innviðina.

Eins og sakir standa hafa aukinheldur markaðir tekjustofnar ekki skilað sér svo viðunandi sé til samgönguframkvæmda á Íslandi. Tekjustofnarnir hafa ekki verið fullnýttir og ekki nýtt heldur það augljósa tækifæri sem felst í því að jafnvel hækka bensíngjaldið með lækkandi bensínverði, sem er augljóst tækifæri til að bæta í í fjármögnun kerfisins.

Meginmarkmið skattlagningar á ökutæki og eldsneyti er auðvitað bæði tekjuöflun og fjármögnun innviða en ekki síður það mikilvæga markmið sem hlýtur að vera alltaf til hliðar en þó óaðskiljanlegt frá því markmiði sem er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samgönguráðherra sem ber ábyrgð á þróun og uppbyggingu samgangna í landinu hlýtur að horfa til þess að tekjuöflun sé alltaf í takti við meginmarkmið varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Auðvitað má velta fyrir sér líka aðkomu samgönguráðherrans og samgönguráðuneytisins almennt í því að tryggja stöðu grænna sjónarmiða í þessu efni, að samgöngukerfið sé þannig uppbyggt að þeir sem nýta það helst standi straum af viðhaldi þess og uppbyggingu. Þannig værum við bæði að bæta þennan tekjugrunn samfélagsins og innviðanna og auk þess gæta að hinu mikilvæga umhverfissjónarmiði.

Eins og kom fram í orðaskiptum hv. þingmanns við fjármála- og efnahagsráðherra áðan er fjárfestingarhlutfallið allt of lágt í þessa mikilvægu innviði á Íslandi eða 1,3% af vergri landsframleiðslu sem fer í vegagerð. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða markmið og hvaða leiðir sér hæstv. ráðherra til þess að fjármagna samgöngukerfi (Forseti hringir.) sem er komið að fótum fram?