145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

fjármögnun samgöngukerfisins.

751. mál
[15:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Bara örstutt athugasemd vegna þess að ég veit að mörgum finnst markaðir tekjustofnar í grundvallaratriðum góð hugmynd. Það kemur í ljós að mörgum innan stjórnsýslunnar finnst það vond hugmynd út af vandamálum sem geta stafað þar af. Mér finnst áhugavert að hugsa um vegakerfið og fjármögnun þess í því sambandi vegna þess að það er ákveðin tilhneiging hjá fólki til að hugsa með sér: Við notum einhverjar greiðslur af olíusölu eða einhverju því um líku til að greiða fyrir samgöngukerfin. Þá gleymir það því að við hljótum að horfa fram á miklar breytingar í því hvernig samgöngur virka í framtíðinni, og er reyndar eins gott að svo verði. Það þýðir að tekjustofnarnir sem væru notaðir til að fjármagna gatnakerfið mundu breytast mjög mikið ef þeir væru markaðir. Mig langaði að nefna þetta því að það er m.a. af þeim ástæðum sem mér finnst gott að tekjustofnar séu ekki lengur markaðir til þess að fjármagna þetta kerfi, því að það mun taka miklum breytingum í framtíðinni, vonandi og sem betur fer.