145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Undanfarið ár hefur einhvern veginn minnt mig á aðdraganda hrunsins árið 2008. Mjög margt er nú að gerast sem fékk að eiga sér stað fyrir hrun. Við horfum upp á alla vega upphaf einhvers konar fasteignabólu þó að forsvarsmenn Seðlabankans telji svo ekki vera. Það er þannig með þessi hagkerfi að þau eru eins og veðurkerfi og það er mjög erfitt að spá nákvæmlega hvernig þessir hlutir þróast. Það geta komið upp tilvik sem setja allt á hvolf á Íslandi eins og t.d. eldgos, hækkun olíuverðs, ef olíuverðið hækkar í heiminum hækka lán allra þeirra sem eru með verðtryggð lán. Mig langar að við sem þingmenn hugsum aðeins um hvað við getum gert til að fyrirbyggja að við lendum í hrakningum enn og aftur. Það er ákveðið gullæði núna, við þekkjum það. Um margt minnir brjálæðið í kringum ferðamannastrauminn mig á æsku mína, þegar ég bjó í Þorlákshöfn, og peningalyktina lagði um þorpið því að oft var góður fiskur settur í bræðslu þar sem ekki var hægt að vinna allan fiskinn sem kom á land. Maður upplifir pínulítið að allt þetta ferðafólk sem hefur mjög mikið að gefa inn í samfélag okkar, við búum við ákveðið góðæri núna út af auknum straumi ferðamanna, að við nýtum okkur það ekki til framtíðar heldur byggjum hvert fiskbræðsluhúsið á fætur öðru.

Við pössum ekki upp á að fólk sem virðist að einhverju leyti vera siðblint skammtar sér risastóra bónusa innan úr bankanum sem við eigum víst að eiga. (Forseti hringir.) Það er okkar hlutverk, okkar starf, að tryggja að svona gerist ekki í samfélaginu okkar.